Styrkjum til atvinnumála kvenna var úthlutað þann 17.maí og fengu 29 verkefni styrki að upphæð kr. 40 milljónir. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra afhenti styrkina í athöfn sem fór fram í Hörpu.
Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað síðan 1991 og eru þeir ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi.
Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum. Unnt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.
Í ár bárust 135 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið umsóknir á undanförnum vikum. Nefndina skipa þær Herdís Á. Sæmundardóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir, Elín Gróa Karlsdóttir, Elín Sigríður Þórðardóttir og Kolbrún Ágústa Guðnadóttir.
Hæsta styrk, eða fjórar milljónir, hlaut Anna Bryndís Blöndal fyrir verkefni sitt „Lyfjafræðileg umsjá“ en verkefnið felst í því að þróa hugbúnað sem mun gera lyfjafræðingum og fagaðilum að yfirfara lyf einstaklinga með tilliti til lyfjatengdra vandamála. Þetta er þjónusta sem stuðlar að því að skilgreina markmið lyfjameðferðar fyrir sjúkling og leita bestu leiða til að ná þeim markmiðum og ná þannig betri yfirsýn yfir lyfjanotkun.
Anna W.De Matos hlaut 3.300.000 króna styrk fyrir verkefni sitt „Verkfærasafn – Reykjavík Tool Library“. Megin tilgangur verkefnisins er að þróa áfram verkfærasafnið sem snýst um að auka aðgengi almennings að verkfærum og vinnuaðstöðu fyrir ýmiskonar viðhald og skapandi verkefni. Í stað þess að fjárfesta í dýrum verkfærum getur almenningur keypt meðlimakort svipað og á bókasafni. Einnig er rekin þar samfélagsleg vinnustofa þar sem verkfæri eru aðgengileg og boðið er upp á ýmis hagnýt námskeið.
Katrín Pétursdóttir hlaut 3.300.000 styrk fyrir verkefni sitt „Aska“. Markmið verkefnisins er að þróa leirblöndur, aðferðir og hönnunarferla til framleiðslu á íslenskum duftkerjum. Lengi vel hefur íslenskur leir verið talinn erfitt og jafnvel ónothæft hráefni til keramíkvinnslu, m.a. vegna hlutfalls járns í honum, mikillar rýrnunar og brothættu. Eitt af markmiðum verkefnisins er að nýta þessa svokölluðu “galla” íslensks leirs í framleiðslu duftkerja sem brotna niður í jörðu og einblína þannig á kosti fremur en galla.
Sunna B. Skarphéðinsdóttir hlaut 3.000.000 króna styrk vegna verkefnisins „Örmælir“ sem lýtur að hönnun, framleiðslu og sölu á tæki sem mælir örsmátt vökvarúmmál snertilaust. Mælirinn er ætlaður til notkunar í heilbrigðisgeiranum og er negin tilgangur með hönnun og sölu á tækinu tíma- og efnissparnaði hjá vísindamönnum.
Af öðrum spennandi verkefnum má nefna þróun á þekkingarmiðstöð fyrir aldraða, þróun á garni og þarabandi, þvívíddarmyndvinnslu, fjarþjálfun í hestamennsku, íslenskt límtré, þróun á vörum úr þara og hreindýrafitu, ný tegund af heilsuvatni úr sjó og markaðssetning erlendis á lýsi svo eitthvað sé nefnt.
Lista yfir styrkhafa má finna hér
Styrkhafar 2019