Pikkoló er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa fengið lán hjá Svanna-lánatryggingasjóði. Fyrirtækið sérhæfir sig í umhverfisvænni leið á dreifingu matvæla og býður upp á þjónustu bæði fyrir fyrirtæki í matvælaframleiðslu og neytendur.

Fólk getur þannig nálgast fjölbreytta og ferska matvöru í nærumhverfi sínu með snjallari og umhverfisvænni hætti. Nú eru 3 Pikkoló stöðvar í Reykjavík og fleiri á leiðinni á næstu vikum.

Ragna Guðmundsdóttir er einn forsprakka fyrirtækisins.

Hvernig kom hugmyndin að fyrirtækinu til ykkar?

Hugmyndin varð til á vormánuðum árið 2019. Við Kristbjörg meðstofnandi minn vorum að þróa hugmyndafræði sem byggir á hönnunardrifinni nýsköpun. Ég var þá nýbúin með meistaragráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun þar sem ég lagði áherslu á það hvernig maður getur nýtt hönnun sem tól í stjórnun nýsköpunar. Hugmyndin spratt yfir kaffibolla þar sem við vorum að ræða Eldum Rétt og afhverju ég gat ekki nýtt mér þá þjónustu vegna þess að ég vildi ekki binda mig heima til að taka á móti matnum eða láta hann standa fyrir utan heima hjá mér í lengri tíma. Eftir að hafa prófað Eldum Rétt einu sinni þá var eiginlega bara ekki aftur snúið og við fórum að skoða það hvort það væri ekki hægt að auka aðgengi að slíkri þjónustu. Við fórum í mikla rannsóknarvinnu þar sem við byrjuðum á að taka notendaviðtöl við verslanir, vinnustaði en auk þess héldum við vinnustofur þar sem við köfuðum dýpra og þróuðum hugmyndina áfram. Síðan þá höfum við fengið gríðarlega góðar viðtökur og höfum meðal annars fengið stóra og eftirsótta styrki úr Tækniþróunarsjóði, Hönnunarsjóði, frumkvöðla Auði Kviku og Miðborgarsjóði. Styrkirnir hafa hjálpað okkur gríðarlega við að koma hugmynd okkar upp á næsta skref.

Um hvað snýst Pikkoló ?

Meginmarkmið okkar er að hjálpa fólki að nálgast fjölbreytta og ferska matvöru í nærumhverfi sínum með snjallari og umhverfisvænni hætti. Þetta gerum við með því að tengja matvöruverslanir við kældar Pikkoló stöðvar sem við staðsetjum í nærumhverfi fólks. Núna erum við búin að opna 3 Pikkoló stöðvar á höfuðborgarsvæðinu og munum opna tvær til viðbótar á komandi vikum. Í dag eru 13 verslanir búnar að tengjast snjalldreifikerfi Pikkoló og byrjaðar að bjóða upp á Pikkoló sem afhendingarmáta. Við erum rétt að byrja en fleiri spennandi verslanir eru væntanlegar hjá okkur á næstu misserum.

Hvað er framundan?

Næst á dagskrá er opnun á tveimur nýjum og glæsilegum Pikkoló stöðvum til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu og verðum við því samtals komin með fimm starfandi Pikkoló stöðar innan skamms. Ásamt því erum við í stöðugri hugbúnaðarþróun á snjalldreifikerfi Pikkoló en spennandi nýjungar eru væntanlegar hjá okkur á þessu ári. Auk þess erum við að fara leggja meiri áherslu á markaðs- og kynningarstarf til þess að sem flestir kynnist starfsemi Pikkoló og prófi að nýta sér þjónustuna. Við sjáum það að þegar fólk byrjar hjá okkur þá er ekki aftur snúið því þetta er svo ótrúlega einfalt og þægilegt.

Hvaða áskoranir hefur þú þurft að takast á við?

Verkefnið er gríðarlega margþætt, bæði erum við að þróa hugbúnað, vélbúnað og mannvirki á sama tíma og þurfum því að fara í gegnum flókið regluverk til þess að koma stöðvunum upp í nærumhverfi fólks. Auk þess þurfum við að tengja mismunandi verslanir við kerfið okkar sem allar eru með sín eigin kerfi sem eru eins mismunandi og þau eru mörg. Síðast en ekki síst erum við að dreifa ferskri matvöru sem hefur visst geymsluþol og því þarf að passa vel upp á kælingu á meðan vörurnar eru í dreifingu hjá okkur en við leggjum mikla áherslu á ferskleika.

Hvað er mest gefandi og hvað er mest krefjandi?

Það sem hefur verið mest gefandi í þessu ferli er að hitta ánægða viðskiptavini sem sækja matarinnkaupin sín til okkar í hverri viku. Sérstaklega finnst okkur gaman að sjá þegar fólk kemur gangandi eða á hjóli að sækja til okkar eða grípur með sér matarinnkaupin beint fyrir utan vinnustaðinn sinn eða líkamsræktarstöðina þar sem það fólk getur nýtt ferðina vel. Einnig finnst okkur virkilega gefandi að sjá hversu mikið virði við erum að skapa fyrir minni verslanir sem eru að hefja rekstur og eiga erfitt með að bjóða upp á heimsendingar þar sem það er mjög kostnaðarsamt að koma upp eigin dreifikerfi sem mætir væntingum og þörfum viðskiptavinarsins. Það sem hefur verið mest krefjandi í þessu verkefni er líklega það hvað það er erfitt að skilja á milli vinnu og einkalífs og hvað það gefst lítið svigrúm fyrir það að kúpla sig alveg út í frí þegar maður er frumkvöðull að hefja sinn eigin rekstur. Á sama tíma er það ótrúlega gefandi að vera að byggja upp eigið fyrirtæki með nýrri þjónustu sem virkilega skiptir fólk máli í þeirra dags daglega lífi.

Hvað er mikilvægast þegar verið er að þróa svona verkefni?

Teymið númer eitt, tvö og þrjú.  Einnig skiptir það gríðarlegu máli að finna réttu samstarfsaðilana sem hafa trú á hugmyndinni og geta hjálpað þér að láta hana verða að veruleika. Þetta á sérstaklega við á fyrri stigum þegar það er ekki komin inn mikið fjármagn í verkefnið. Í okkar tilfelli gerðum við snemma samning við BYKO, Kapp kælikerfi, Eldum Rétt og Brandenburg til þess að byggja upp frumgerð með litlum tilkostnaði. Það varð til þess að við gátum byrjað notendaprófanir mjög snemma í ferlinu sem hefur hjálpað okkur mikið í allri okkar þróunarvinnu. Við erum ótrúlega þakklát þessum aðilum sem virkilega höfðu trú á okkur allt frá upphafi.

Hvaða ráð viltu gefa þeim frumkvöðlakonum sem eru að stíga sín fyrstu skref?

Leggðu áherslu á að byggja upp fjölbreytt teymi sem þér finnst gaman að umgangast. Passaðu upp að vanda alla samningagerð og ekki hundsa rauð flögg í samstarfi. Reyndu að sanna konseptið eins fljótt og hægt er með notendaprófunum á alvöru viðskiptavinum – helst ættir þú að fá fólk til að borga fyrir vöruna eða þjónustuna eins fljótt og hægt er til þess að sanna það hvort hún muni skapa virði fyrir viðskiptavini. Síðast en ekki síst þarft þú að muna að þetta ferli er maraþon en ekki spretthlaup. Frumkvöðlar þurfa mikla þolinmæði, mikið sjálfstraust og þykkan skráp til þess að komast áfram í þessum heimi. Þetta er langt og strangt ferðalag sem mun verða fullt af áskorunum sem þú munt þurfa að leysa. Njóttu ferðarinnar og vertu með skýrt markmið sem mun á endanum koma þér á leiðarenda. Eitthvað sem þú vilt við þetta bæta?

Við erum ótrúlega þakklát fyrir það að hafa verið valin úr hópi umsækjanda um lán hjá Svanna. Lánið hjálpaði okkur gríðarlega við uppbyggingu á snjalldreifikerfi Pikkoló á síðasta ári. Tímapunkturinn var einnig mikilvægur fyrir okkur þar sem það getur verið erfitt að fá lán fyrir nýsköpunarverkefnum áður en fyrirtæki geta sýnt fram á miklar tekjur. Lánið var því gríðarlega stór stökkpallur fyrir okkur fyrir áframhaldandi þróun á snjalldreifikerfi Pikkoló.

www.pikkolo.is

 

                                                     

Related Posts