Við undirskrift samnings sem sendur er til Atvinnumála kvenna er helmingur styrks greiddur út. Til að fá greiddar eftirstöðvarnar þarf að skila skýrslu til Atvinnumála kvenna ásamt yfirliti yfir reikninga og skal kostnaður nema tvöfaldri upphæð styrks.

Heimilt er að telja fram eigið framlag styrkþega en það getur numið helming styrksupphæðar.

Skýrsla vegna styrks til vöruþróunar, markaðssetningar og launakostnaðar

Til að fá lokagreiðslu styrks ber styrkþegum að skila inn lokaskýrslu ásamt yfirliti yfir kostnað.    Verkefnisstjóri Atvinnumála kvenna ber saman skýrslu og umsókn og metur hvort tilteknum verkefnum hafi verið lokið.

Mikilvægt er að huga að því að skýrslugerðin skal að miðast við þá þætti sem styrktir voru og það sama á við um kostnað vegna verkefnisins, yfirlit um kostnað á eingöngu að vera vegna viðkomandi verkefnis.

Í lokaskýrslu er gerð ítarleg grein fyrir lokaniðurstöðu verkefnis.

  • Nauðsynlegt er að fara yfir þá verkþætti sem hafa verið unnir og hvernig var staðið að framkvæmdinni.
  • Fara þarf yfir og meta þann árangur sem náðst hefur í verkefninu og hverjar niðurstöður þess urðu.
  • Gera þarf grein fyrir hverju vinnan skilaði varðandi áframhaldandi framgang verkefnisins og hver verða næstu skref.
  • Gera þarf grein fyrir heildarkostnaði verkefnisins en hann þarf að vera að lágmarki helmingi hærri en upphæð styrks. Þetta á þó ekki við launastyrk, en í þeim tilfellum þarf að skila inn launaseðlum.

Góð skýrsla á að vera vitnisburður um verkefnið ykkar, að það hafi skilað þeim árangri sem ætlast var til í upphafi.

Viðskiptaáætlun

Styrkhafar sem fá styrk til að gera viðskiptaáætlun þurfa eingöngu að skila inn áætluninni sjálfri. Ekki er þörf á að sýna fram á kostnað vegna gerðar hennar.

Skýrsluskil

Skýrslum og viðskiptaáætlunum ber að skila á rafrænu formi í gegnum umsóknarvef okkar. Þá er farið inn í kerfið og smellt á „Skýrsla“ en það er hlekkur sem birtist fyrir aftan viðkomandi verkefni.

Umsækjendur þurfa að skila skýrslu eða áætlun innan eins árs en að öðrum kosti fellur styrkur niður. Ef skýrslu er ekki skilað þá áskiljum við okkur rétt á því að endurheimta fyrri helming styrks er greiddur var í upphafi.