Lánareglur Lánatryggingasjóðs kvenna

Reglur þessar eru settar í samræmi við samþykktir Lánatryggingasjóðs kvenna, dags. 28. maí 2020, og gilda um skilyrði til veitingu lánatryggingar úr sjóðnum, meðferð umsókna og framkvæmd ábyrgðar.

I kafli

Skilyrði ábyrgðar á lánum

1.1.      Eignarhlutur.

Eingöngu  fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu konu/kvenna og undir stjórn konu/kvenna geta fengið ábyrgðartryggingu. Ábyrgð er eingöngu veitt á starfandi fyrirtæki.

1.2.      Atvinnusköpun – nýsköpun.

Gerð er krafa um að í fyrirtæki eða í verkefni fyrirtækis (ef sótt er um ábyrgð á einstöku verkefni fyrirtækis) felist atvinnusköpun.  Kostur er ef jafnframt á sér stað nýsköpun.

1.3.      Ábyrgð.

Unnt verður að sækja um ábyrgð og lán fyrir verkefnum innan fyrirtækja sem byggjast að einhverju leiti á nýsköpun, þar sem fyrirtækið og/eða verkefnið leiðir til atvinnusköpunar og verðmætaaukningar.  Mat er lagt á viðskiptaáætlun fyrirtækisins og/eða þess afmarkaða verkefnis innan fyrirtækis sem ábyrgð á láni er sótt um og er grundvöllur umsóknar.

Ekki er veitt ábyrgð á láni fyrir óhóflegum launakostnaði né launakostnaði eigenda sbr. við vöruþróun, sölu- og markaðsstarf.

Að jafnaði er ekki veitt ábyrgð á láni fyrir reglubundnum rekstrarkostnaði.

Til greina kemur að veita lán fyrir tækjum sem eru nauðsynleg rekstrinum og/eða verkefninu en þá með veði í umræddum tækjum.  Lánað er fyrir kostnaðarverði tækjanna að því gefnu að notkun á þeim leiði til atvinnusköpunar og verðmætaaukningar.

Ábyrgð skal ekki vera undir  1.500.000  króna og að jafnaði skal ábyrgð ekki fara yfir 5 milljónir króna. Stjórn Lánatryggingasjóðs kvenna er þó heimilt að afgreiða hærri ábyrgðir í undantekningartilvikum með hliðsjón af eðli og tegund umsókna.

II kafli

Meðferð og mat umsókna

2.1.      Í umsókn um ábyrgð skulu koma fram:

  1. Upplýsingar um fyrirtækið og forsvarsmann þess.
  2. Greinargóð lýsing á verkefni/fyrirtæki, markmiðum þess og ávinningi.
  3. Hverjir koma að umsókninni og tilgreining samstarfsaðila.
  4. Viðskiptaáætlun (ítarleg fjárhags- og framkvæmdaráætlun).
  5. Lýsing á heildarfjármögnun fyrirtækis eða afmarkaðs verkefnis innan fyrirtækis, og staðfesting fjármögnunaraðila ef þeir eru til staðar.
  6. Áætlun um tekjustreymi fyrirtækis og/eða verkefnis og áætlun um endurgreiðslu láns.
  7. Afrit af leyfum vegna viðkomandi starfsemi.

 

2.2.      Mat umsókna.

Umsóknir eru metnar út frá eftirfarandi þáttum:

  1. Lýsingu á viðskiptahugmynd og sérstöðu.
  2. Atvinnusköpun kvenna, umfang og fjöldi starfa sem verða til.
  3. Verðmætasköpun og arðsemi fyrir hagaðila. Hvaða þarfir er verið að uppfylla?
  4. Samkeppnisumhverfið og nýsköpun. Í hverju felst nýsköpun samhliða samkeppnisgreiningu (sbr. SVOT).
  5. Viðskiptaáætlun (fjárhags-, og framkvæmdaráætlun). Skýr lýsing á stefnu, markmiðum og verðmætasköpun.
  6. Fjármögnun. Lýsing á fullfjármögnun verkefnis og endurgreiðsluáætlun láns.
  7. Raunhæfni. Hversu líklegt er að verkefnið verði að veruleika?
  8. Áhættumati og fjárhagsstöðu umsækjanda (upplýsinga aflað af lánastofnun).

 

2.3.      Afgreiðsla umsókna.

Auglýst er eftir umsóknum allt að tvisvar sinnum á ári. Stjórn ákveður að öðru leyti hve oft er auglýst og nánari útfærslu á umsóknarfresti hverju sinni. Auglýsingar skulu birtar á heimasíðu Lánatryggingasjóðs kvenna.

Umsækjendum býðst ráðgjöf og handleiðsla við útfærslu umsókna hjá atvinnuþróunarfélögum um allt land.

Umsækjandi fyllir út sérstakt umsóknareyðublað á heimasíðu sjóðsins. Stjórn fer yfir umsóknir og leggur mat á það hvort umsóknin falli undir verksvið sjóðsins og uppfylli reglur hans. Að því loknu eru umsóknir sem uppfylla formskilyrði sendar til lánastofnunar er metur lánshæfi umsækjenda út frá áhættumati og fjárhagsstöðu. Stjórn setur sér reglur um hve hátt hlutfall af stofnfé sjóðsins er nýtt til trygginga við hverja úthlutun. Lánshæfar umsóknir fara því næst til stjórnar Lánatryggingasjóðs kvenna sem tekur ákvörðun um veitingu ábyrgða í samræmi við samþykktir sjóðsins og lánareglur þessar.

 

Kafli III

Framkvæmd ábyrgðar

3.1.      Lánatryggingasjóður kvenna.

Fjármunir sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar eru settir í ábyrgðarsjóð er ber ábyrgð á lánum sem tekin eru hjá lánastofnunum. Stjórn sjóðsins gerir samkomulag við lánastofnanir um ábyrgðarveitingar sem kveður á um tegundir lána, lengd, vaxtarkjör, lántökugjöld og önnur gjöld. Einnig skal gera samning um hlutdeildarskiptingu sjóðs og banka varðandi ábyrgðir.

3.2.      Eftirfylgni.

Lántaki skal skila ársskýrslu verkefnis/fyrirtækis fyrir 31. ágúst ár hvert sem ábyrgðin er í gildi.

Stjórn er heimilt að óska eftir upplýsingum um framvindu og stöðu verkefnis/fyrirtækis hvenær sem er á tímabilinu.

3.3.      Lengd ábyrgðar (gildistími).

Lengd ábyrgðar fer eftir samkomulagi við lánastofnun og stjórn sjóðsins.

3.4.      Aðgerðir vegna vanskila.

Sé um vanskil að ræða sem hafa varað lengur en þremur mánuðum skal lánastofnun gera stjórn sjóðsins viðvart og í framhaldinu skal gripið til venjubundinna úrræða viðkomandi lánastofnana.

 

Kafli IV

Ýmis ákvæði

4.1.      Lánareglum þessum verður aðeins breytt af stjórn sjóðsins liggi fyrir samþykki allra stjórnarmanna og stofnaðila sjóðsins.

 

Reykjavík 7. október 2020