Verkefnið Lilli tígur – Íslenskt barnaefni með áherslu á fræðslu, frjálsa hugsun & sköpun varð hlutskarpast í Fyrirtækjasmiðju Atvinnumála kvenna en smiðjan var haldin í tengslum við úthlutun styrkja til atvinnumála kvenna.

Smiðjan snerist um að móta og útbúa kynningu á þeim verkefnum er styrk fengu til gerð viðskiptaáætlunar. Átta teymi kepptu um verðlaun að upphæð kr.1.000.000 og var um fjölbreytt verkefni að ræða.

Einar Sigvaldason hjá Senza partners hélt utanum smiðjuna en þær Elínóra Inga Sigurðardóttir, Fida Abu Libdeh og Harpa Magnúsdóttir voru dómarar, en þær eru allar frumkvöðlar og reka sín eigin fyrirtæki.

Í umsókn dómnefndar kom eftirfarandi fram um verkefnið:

„Eftir að dómnefnd hafði tekið tillit til allra matsþátta var samdóma álit að Lilli Tígur hreppir verðlaunin að þessu sinni.

Lausnin er frábær, teymið skýrði vel frá nálguninni á mannamáli og kynningin var góð.

Markaðurinn er til staðar og er vel skilgreindur. Lýst var hvernig nálgast er markaðinn á skýran hátt og augljós sérstaða er á markaði. Dómnefnd telur að þörfin sé mikil fyrir íslenskt barnaefni og efnið nýtist einnig sem öflugt tól til kennslu á íslensku sem annars tungumáls.

Teymið er öflugt og ástríðan er lykill að árangri. Að mati dómnefndar er hluti velgengni nýsköpunarverkefna að koma þeim á framfæri og Lilli Tígur hefur náð að stíga fyrstu skref inn á íslenskan markað og náð að fá umfjöllun fjölmiðla og vakið athygli.

Varan er því núþegar komin á markað og hefur sannað gildi sitt“.

Okkur lék forvitni á því að vita meira um þær Fanný og Þórhildi og hvernig hugmyndin kviknaði að verkefninu.

Hverjar eru í teyminu?

Fanný er hjúkrunarfræðingur og 2 barna móðir og hefur hún mikinn áhuga á list, handavinnu og skapandi starfi og málar ma. myndir sér til skemmtunar. Hún telur mikla núvitund felast í því að skapa og leggur hún áherslu á að miðla því til barna sinna.

Þórhildur er vef- og menningarmiðlari með bakgrunn í ýmiskonar efnissköpun. Þórhildur á einnig tvö börn sem hún hikar ekki við að virkja og fá með sér í hin ýmsu skapandi verkefni.

Um hvað snýst ykkar verkefni?

Lilli Tígur er íslenskt barnaefni sem er búið til með börnunum okkar og leikmyndin er úr leikföngum þeirra og föndri. Markmiðið með þáttunum er að það sé ekki of mikið áreiti heldur að þættirnir ýti frekar undir virkni, sköpun og frjálsa hugsun.  Það má segja að markmiðinu sé náð ef börn hætta að horfa á Lilla Tígur því þættirnir hafi gefið þeim hugmynd að leik eða verkefni til að leysa.

Þessa dagana erum við að vinna að þáttaröð nr. 2 sem er litasería og þar er einnig lögð áhersla á liti, sköpun, lestur og íslenskunám. Þættirnir miðla jákvæðum boðskap til barna, kenna þeim gamla og góða leiki í bland við nýrri leiki og sýna þeim á sama tíma að leiðin hinumegin við skjáinn er í raun og veru ekki svo löng – því nýja ,,leikara’’ og ,,leikmyndir’’ er hægt að finna á öllum heimilum.

Á okkar heimilum er mikil áherslu lögð á íslensku sem fyrsta tungumál og hafa börnin okkar lítið sem ekkert fengið að horfa á erlent efni. Við erum mjög meðvitaðar um það að móðurmálið þarf að koma fyrst og svo er hægt að byggja önnur mál ofan á það. Það er einmitt það sem heldur okkur í þessu og er okkar markmið – að börnin hafi aðgang að íslensku efni þar sem þau læra t.d. að segja ,,hoppa’’ áður en þau læra að segja enska orðið ,,jump’’ í erlendu myndbandi á youtube.

 Hvernig kom hugmyndin til ykkar?

Grettir Thor Árnason sonur Þórhildar var 5 ára og búinn að vera veikur heim í þrjá daga og orðinn þreyttur á dótinu í herberginu sínu og efninu sem hann hafði aðgang að í sjónvarpinu. Hann hafði heyrt af streymisveitunni Youtube og vildi fá að kíkja þar inn á og sjá þar nýtt efni. Þórhildur mamma hans brá á það ráð að segja honum að ef hann vildi horfa á Youtube þyrfti hann einfaldlega sjálfur að búa til Youtube efni. Hann sló til og skellti í sögu um lítið tígrisdýr sem var að fara yfir vatn og var söguþráðurinn skemmtilega dramatískur og foreldrar hans voru étnir á mínútu tvö. Sagan fór ,,viral’’ eins og maður segir og í framhaldinu var ekki annað hægt en að sjá hvort fólk vildi meira og fóru þau á Karolina Fund með söfnun fyrir heilli seríu sem fór alla leið og 9 mánuðum síðar var haldið útgáfupartý og 10 þátta seríu fagnað með rúmlega 100 manns.

Hverjar eru helstu áskoranirnar?

Að finna tíma til að skapa þættina samhliða annarri vinnu, því eins og staðan er í dag þá er þetta ekki okkar aðalstarf, því miður. Það getur einnig verið ágætis áskorun að vinna með börnum og að þurfa að treysta á að þau séu til þegar við erum lausar, því eins og hjá okkur þá er dagskráin hjá þeim ansi þétt líka og orkustigið og skapið misjafnt eins og hjá okkur fullorðna fólkinu.

Hvað er skemmtilegast?

Að vinna með börnunum okkar og vera bestu vinkonur saman í þessu. Þá er það afar gefandi og gott í hjartað að vera skapa þætti sem eru uppbyggilegir og byggja á sjálfbærni, íslenskunámi og sköpun barna. Þá þykir okkur einnig afar vænt um þau hrós sem við höfum fengið fyrir þættina og að foreldrar séu að finna fyrir því að þau fái minna samviskubit ef börnin þeirra horfi á Lilla Tígur en aðra þætti. Það er líka skemmtilegt að segja frá því að fullt af börnum hafa minnkað skjánotkun eftir að hafa séð þættina og vilja sjálf gera svona með dótið sitt. Svona sögur gera þetta sko heldur betur þess virði!

Staðan á verkefninu í dag er þannig að Lilla Tígur teymið er nær hálfnað með seríu tvö sem eru um Lilla Tígur og litina, þar sem hver þáttur byggir á einum lit og svo framvegis og verða þættirnir alls 10 eins og í seríu nr. 1. Draumurinn er að fá fjármagn til að láta næstu seriu verða að veruleika og vonandi með einhverjum góðum bakhjörlum eða styrkjum. Þá er einnig ýmislegt skemmtilegt framundan og er t.d. viðræður um Stop Motion námskeið með samstarfsaðila í gangi auk talsetningarnámskeiðs fyrir alla krakka sem hafa áhuga á talsetningu auk þess sem Lilla Tígur bók, litabók og plaköt eru á frumstigi.

Hvaða þýðingu hafa verðlaunin og styrkurinn fyrir ykkar verkefni?

Styrkurinn hefur ofboðslega mikla þýðingu fyrir okkur og veitir okkur mikla hvatningu til að sjá Lilla Tígur í stærra samhengi og hvernig við getum haldið áfram að stækka. Við erum varla enn að trúa því að við sigruðum fyrirtækjasmiðjuna enda stórglæsilegar og flugklárar frumkvöðlakonur sem við vorum í keppni við þar. Verðlaunin þar veita okkur mikinn eldmóð til að halda áfram og ekki skemmir fyrir að geta greitt okkur smá laun í framleiðsluferlinu enda ansi tímafrek, en umfram allt skemmtileg vinna að búa þættina til. Endalaust þakklæti til Atvinnumála kvenna fyrir að hafa trú á okkur og gefa okkur tækifæri til að fara með verkefnið okkar enn lengra.

Það ættu allir að vinna við það sem þeir elska og brenna fyrir, og þótt að framleiðslan sé ekki aðalstarfið okkar í dag þá flytur trúin fjöll og þess vegna trúum við því statt og stöðugt að einn daginn geti þetta orðið aðalstarfið okkar, því þörfin er svo sannarlega til staðar og viðtökurnar hafa verið góðar.

Okkar ráð er einnig að lokum að elta drauminn, byrja og síðast en ekki síst að kynnast fólkinu í kringum þig sem þú hittir í ferlinu.

Meðfylgjandi eru nokkrar skemmtilegar myndir af framleiðsluferlinu.

Related Posts