Evrópuverkefnið Efling kvenfrumkvöðla á landsbyggðinni eða Female Rural Enterprise Empowerment (FREE) efnir til lokaráðstefnu á Sauðárkróki þann 18. apríl n.k.
Kveikjan að Evrópuverkefninu FREE var að rannsóknir sýndu að frumkvöðlakonur á landsbyggðinni hafa oft ekki tök á því að ferðast um langan veg til að taka þátt í námskeiðum eða fundum um stofnun og rekstur fyrirtækja. Þær vilja hafa aðgang að fræðslu og gagnlegu efni í gegnum netið en auk þess eru tengslanet oft á tíðum ekki eins öflug og á þéttbýlli svæðum. Þetta sýna rannsóknir frá flestum löndum í Evrópu.
Verkefnið er samstarfsverkefni sex aðila frá fimm löndum, en auk Vinnumálastofnunar, sem leiðir verkefnið, tekur Byggðastofnun þátt ásamt aðilum frá Bretlandi, Búlgaríu, Króatíu og Litháen.
Verkefnið skiptist í þrjá þætti:
- Fræðsluefni á netinu í námsþáttum eins og stefnumótun, útflutningi, vöruþróun, markaðssetningu, kennslu í notkun samfélagsmiðla, netsölu og fjármálum. Námið er nú þegar aðgengilegt á heimasíðu verkefnisins http://ruralwomeninbusiness.eu/
- Þrjú tengslanet voru stofnuð, á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi en lögð var áhersla á að vinna með konum búsettum á þessum svæðum. Tengslanetunum er stýrt af sjálfboðaliðum, konum sem sjálfar eru í atvinnurekstri.
- Frumkvöðlakonum var boðið að taka þátt í jafningjafræðslu í gegnum hæfnihringi á netinu, þar sem frumkvöðlakonur hafa rætt um áskoranir og verkefni.
Dagskrá ráðstefnunnar er eftirfarandi:
Kl. 11.30-12.30 – Húsið opnar og boðið upp á hressingu
12.30-14.00 – Kynning á Free verkefninu og niðurstöðum þess, upplifun þátttakenda í hæfnihringjum og í tengslaneti.
14.00-15.00 – Örvinnustofur – sjá lýsingu hér að neðan en nauðsynlegt er að skrá sig á vinnustofurnar (sjá link)
15.00-16.00- Sirrý Arnardóttir leiðir þátttakendur ,,Fram í sviðsljósið (óskjálfandi og með sól í bringu)“
Hagnýtur fyrirlestur um að koma sér/vöru/hugmynd á framfæri, standa með sér og nýta tækifærið vel.
Sirrý fjallar á hagnýtan hátt um það að standa með sér, beinn í baki með sjálfstraustið í lagi, nýta sér kvíðann og koma málinu í höfn.
– Komið er inn á atriði eins og að undirbúa óundirbúna ræðu, halda flotta kynningu, skapa tengslanet og þora að skína.
Í lok ráðstefnunnar gefst þátttakendum tækifæri til að efla tengslanetið.
Dagskrá örfyrirlestra:
Hönnunarhugsun í fyrirtækjarekstri
Með hönnunarhugsun er á skapandi hátt notast við hugsun og aðferðir til að nálgast verkefni, safna saman upplýsingum og spyrja gagnrýnna spurninga til að leita að nýrri eða betri lausn.
Farið verður yfir helstu þætti hönnunarhusunar og þátttakendur gera stutt verkefni til að fá innsýn í gildi hennar og framkvæmd.
Umsjón: Elfa Hlín Pétursdóttir verkefnastjóri hjá Austurbrú.
Stefnumótun
Um er að ræða gagnvirka vinnustofu þar sem þátttakendur læra um stefnumótun í gegnum leik. Hann snýst um að búa til vöru (kassa) sem þarf síðan að selja á markaði. Þátttakendur þurfa síðan að huga að þáttum eins og leiðtogafærni, áhættu, teymisvinnu og hvernig á að verðleggja hluti. Vinnustofan verður haldin á ensku en þýdd á íslensku.
Umsjón; Marina Larios, Inova og Ásdís Guðmundsdóttir, Vinnumálastofnun
Markaðssetning á samfélagsmiðlum – hvernig verðum við sýnileg?
Markaðssetning á samfélagsmiðlum er einföld og áhrifarík leið til að ná til hugsanlegs markhóps. Hún gengur út á það að para saman fyrirtæki og neytendur sem hafa áhuga á vörunni eða að virkja þá sem fyrir eru og láta virði samskiptanna vaxa. Kynntar verða misvel heppnaðar tilraunir til markaðssetningar og þátttakendur gera stutt verkefni til að öðlast betri skilning á mikilvægi vel heppnaðar markaðssetningar á samfélagsmiðlum.
Umsjón: Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi SSNV
Samhliða ráðstefnunni verður kynning á fyrirtækjum í eigu kvenna á svæðinu og sér SSNV sér um skipulagningu fyrirtækjasýningarinnar. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku fyrirtækja sem vilja vera með á fyrirtækjasýningu hjá sveinbjorg@ssnv.is fyrir 28. febrúar nk.
Um takmarkað pláss er að ræða og því nauðsynlegt að staðfesta þátttöku eins fljótt og auðið er. Vonast er til að konur sem starfrækja fyrirtæki taki vel í að kynna þau og sýni þannig kraft og framlag kvenna til atvinnureksturs á svæðinu.