Úthlutun styrkja til atvinnumála kvenna
Styrkjum til atvinnumála kvenna var úthlutað þann 16.maí síðastliðinn og fengu 19 verkefni styrki samtals að fjárhæð 38.000.000. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra afhenti styrkina við hátíðlega athöfn að Grensásvegi 9.
Styrkirnir eru ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi. Hægt er að sækja um vegna verkefna allt frá byrjunarstigi til markaðssetningar fullbúnna vara eða þjónustu.
Unnt er að sækja um styrki vegna vinnu við gerð viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar.Í ár bárust 239 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið þær á undanförnum vikum. Nefndina skipa þær Elín Gróa Karlsdóttir, Hanna Dóra Björnsdóttir, Margrét Kr. Gunnarsdóttir og Soffía Gísladóttir.
Hæsta styrkinn sem nemur fjórum milljónum hlutu þrjú verkefni:
Guðrún Heimisdóttir og Erna Niluka Njálsdóttir fyrir hönd Hvað nú? Fengu styrk fyrir verkefnið Hvað nú, en markmiðið er að Hvað nú? verði fyrsta heildstæða stuðningskerfið fyrir syrgjendur á Íslandi sem tryggir að þeir fái skýrar leiðbeiningar og aðstoð við að vinna úr þeim verkefnum sem fylgja ástvinamissi.
Ragnhildur Sigurðardóttir fyrir hönd Góðir Dagar ehf fékk styrk vegna verkefnisins Heyband en markmið verkefnisins er að finna lausnir á endurvinnslu á notuðu heyneti, sem fellur til í verulegu magni hvarvetna þar sem landbúnaður er til staðar.
Rósa Dögg Þorsteinsdóttir fyrir hönd Visttorg ehf. fékk styrk fyrir verkefnið „Þróun sjálfvirkrar gagnaöflunar og gervigreindarlausna fyrir Vistbók“ en Vistbók er gagnadrifin lausn sem mun bjóða upp á sjálfvirka gagnaöflun, rauntímagreiningu og miðlun vistvænna gagna inn í aðfangakerfi byggingargeirans.
Arna Sigrún Haraldsdóttir fékk styrk til að vinna að vöruþróun og framleiðslu á fatnaði sem hentar hreyfihömluðum, en venjulegur fatnaður hentar ekki fólki sem er í hjólastól.
Af öðrum verkefnum má nefna þróun á fatnaði fyrir hreyfihamlaða, þróun afurða úr frostþurrkuðum sjávarafurðum, vöruþróun bætiefnis úr sjávargróðri, þróun próteins úr sælkerasveppum, rannsókn á notkun jarðhitaaflstækni til að vinna bast trefjar úr lúpínu, hampi og hör, þróun sjálfbærrar matvælaframleiðslu með vatnsrækt og samrækt (aquaponics og hydroponics), þróun leirs til framleiðslu á flísum, þróun efni úr lífrænum úrgangi sem geta komið í stað hefðbundinna byggingarefna, nýting skelja í næringarefni, dren og skraut fyrir plöntur, brauðframleiðsla á Stöðvarfirði, greiningu á fýsileika þess að rækta saffran, þróun á leir sem sjálfbærs hráefni fyrir keramik og nytjalist,þróun á sjónvarpsefni fyrir börn og gervigreindarlausn sem sjálfvirknivæðir bókhaldsferla fyrirtækja með notkun spunagreindar.
Styrkhöfum er fengu styrk til gerðar viðskiptaáætlunar var boðið upp á þátttöku í Fyrirtækjasmiðju á netinu. Markmið smiðjunnar, sem var í umsjón Þórunnar Jónsdóttur, ráðgjafa og eiganda Íslandsdætra, var að þátttakendur myndu útbúa kynningu fyrir viðskiptahugmynd sína og halda kynningu fyrir dómnefnd. Í boði var ein milljón króna í verðlaun fyrir bestu kynninguna.
Sigur úr býtum bar Shrutti Basappa fyrir verkefnið Smiðjumúr. Verkefnið gengur út á það að nýta leir og önnur jarðefni á Íslandi í það að þróa 100% íslenskar flísar, klæðningar og múrsteina úr íslenskum leir. Í dómnefnd sátu þær Auður Ösp Ólafsdóttir, Grace Achieng og Hanna Kristín Skaftadóttir.
Ljósmynd: Robert Z – Mirror rose