Ertu ráðgjafi eða sjálfboðaliði ? Viltu auka hæfni og færni þína?
Vinnumálastofnun er einn þátttakanda af fjórum í Evrópuverkefni sem ber nafnið EMPOWER. Markmið verkefnisins er að þróa annarsvegar fræðsluefni fyrir ráðgjafa og sjálfboðaliða sem vinna með konum sem eiga undir högg að sækja af félagslegum ástæðum (fíkniefnavandi, ofbeldi, fátækt, atvinnuleysi ofl.) og hinsvegar að þróa námsefni fyrir konurnar, en boðið verður upp á það námskeið í apríl.
Með námskeiðinu gefst ráðgjöfum tækifæri til að efla eigin hæfni í að aðstoða konur sem þeir vinna með og gefa þeim tækifæri til að þróa starfshæfni sína og auka möguleika sína á vinnumarkaði. Þátttakendur fá einnig aðstoð við að þróa eigin viðskiptahugmynd ef hún er fyrir hendi.
Á námskeiðinu fara þátttakendur í gegnum sjálfsskoðun og verða fjölbreyttar æfingar og verkefni hluti af þeirri rýni. Námsefnið samanstendur einnig af námsþáttum sem að efla styrkleika og seiglu til að takast á við nýjar áskoranir. Skoðað verður hvaða úrræði eru fyrir hendi fyrir hópinn og farið verður í markmiðasetningu.
Námskeiðið fyrir ráðgjafa hefst þann 28. febrúar og stendur yfir í fjóra mánuði. Kennt verður einn þriðjudag í mánuði (2 námsþættir á dag). Viku siðar er svo boðið upp á vinnu í hæfnihringjunum þar sem tækifæri gefst til umræðu um þau verkefni og vandamál sem ráðgjafarnir standa frammi fyrir.
Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu og munu þeir fá staðfestingu á námi að því loknu.
Pláss er fyrir 10 ráðgjafa/sjálfboðaliða á námskeiðunum og 5 í hæfnihringjunum en þess ber að geta að annað námskeið verður haldið í haust.
Samstarfsaðilar eru fjórir; Inova í Bretlandi, Vinnumálastofnun á Íslandi, KMOP á Grikklandi og SIF í Litháen en Inova stýrir verkefninu.
Starfsmenn EMPOWER hjá Vinnumálastofnun eru þær Ásdís Guðmundsdóttir,Ingibjörg Ebba Björnsdóttir og Sigrún Rós Elmers og veita þær allar nánari upplýsingar.
asdis.gudmundsdottir@vmst.is
ingibjorg.bjornsdottir@vmst.is
sigrun.elmers@vmst.is
Hægt er að sækja um þátttöku í námskeiðinu með því að smella hér:
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins www.empoweringwomen.eu