Hvenær verða styrkir auglýstir næst?
Umsóknarfrestur er frá 7.febrúar til og með 14.mars.
Hvað eru styrkir til atvinnumála kvenna?
Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá því árinu 1991 og er það velferðar- og húsnæðismálaráðherra sem úthlutar þeim. Þessir styrkir eru fyrir konur með góðar viðskiptahugmyndir og eru veittir styrkir einu sinni á ári.
Styrkhæf verkefni skulu vera í meirihlutaeigu kvenna (amk 51%) og stjórnað af konum.
Verkefnið skal fela í sér atvinnusköpun til frambúðar.
Um nýnæmi skal vera að ræða, annaðhvort nýja vöru/þjónustu eða þróun vöru/þjónustu
Kröfur eru gerðar um að viðskiptahugmynd sé vel útfærð, markmið skýr og leiðir að þeim vel útfærðar.
Verkáætlun skal vera vel útfærð og raunhæf og kostnaðar og tekjuáætlun vönduð, skýr og trúverðug.
Kröfur eru um að verkefnið skekki ekki samkeppnisstöðu á þeim markaði sem varan eða þjónustan er á.
Hámarksstyrkur er að jafnaði kr. 4.000.000 en ekki eru veittir lægri styrkir en kr. 600.000.
Veittir eru styrkir til gerðar viðskiptaáætlunar, áætlanagerðar, þróunarkostnaðar og markaðssetningar
Liggi viðskiptaáætlun fyrir og og viðskiptahugmyndin sé trúverðug er hægt er að sækja um styrk til að hrinda hugmynd í framkvæmd. Styrk má greiða í áföngum gegn skilum áfangaskýrslu.
Hvað eru veittir háir styrkir?
Að þessu sinni er hámarksstyrkur 4 milljónir og styrkur vegna viðskiptaáætlunar er kr.600.000.
Ég hef áður sótt um styrk til atvinnumála kvenna - má ég sækja um aftur?
Það er ekkert sem bannar það að sækja um styrk aftur en ekki er hægt að fá styrk oftar en tvisvar fyrir sama verkefni, en þó ekki fyrir sama verkþátt.
Í hverskonar verkefni er hægt að sækja um styrki?
Hægt er að sækja um styrki til þess að gera viðskiptaáætlun, til að vinna að markaðsmálum, svo sem markaðssetningu, vöruþróun, og vegna efnis- og hönnunarkostnaðar. Þær konur sem hafa fullmótaða og trúverðuga viðskiptaáætlun geta sótt um styrki á móti launakostnaði við að koma hugmyndinni áfram.
Ekki er veittur styrkur vegna stærri fjárfestinga eða rekstrarkostnaðar.
Hvenær er styrkjum úthlutað?
Eftir að umsóknarfrestur rennur út áskilur ráðgjafanefnd sér 8 vikur til þess að afgreiða umsóknir. Helmingur styrks er greiddur strax við samþykkt umsóknar og við undirskrift samnings en seinni hlutinn þegar skýrsla um verkefnið berst ásamt reikningum vegna útlagðs kostnaðs. Ef ekki berst skýrsla né reikningar er styrkur afturkræfur.
Ég er með starfandi fyrirtæki - má ég sækja um styrk?
Já, ef hugmyndin uppfyllir skilyrðin sem upp eru sett er ekkert því til fyrirstöðu. Þá er hægt að sækja um fjármagn til áætlanagerðar vegna t.d. markaðs- og kynningarmála, vöruþróunar og hönnunarkostnaðar svo eitthvað sé nefnt.
Ég er að sækja um styrk til að gera viðskiptaáætlun - þarf ég að fylla út kostnaðar- og tekjuáætlun?
Það er sérstök umsókn um gerð viðskiptaáætlunar og er þar nægilegt að gera skýra grein fyrir viðskiptahugmyndinni, nýnæmi hennar og markmiðum.
Ég er að sækja um styrk til að gera viðskiptaáætlun, hvað er sá styrkur hár?
Styrkur til að gera viðskiptaáætlun er kr. 600.000.
Ég er með tvær aðskildar vörurlínur sem ég hef áhuga á að þróa. Get ég sent inn tvær umsóknir?
Já, það er ekkert því til fyrirstöðu að útbúa tvær umsóknir.
Ég hef áhuga á að sækja um styrk til að gera viðskiptaáætlun. Er hægt að sækja um það núna eða bara þegar styrkumsóknir eru auglýstar.
Umsóknir um viðskiptaáætlanir fylgja almennum reglum um styrki og aðeins hægt að sækja um þá þegar auglýst er hverju sinni.
Ef sótt er um styrk til að gera viðskiptaáætlun er þá ekki hægt að sækja um styrk vegna markaðsmála, vöruþróunar og hönnunarkostnaðar?
Já, það er hægt að senda inn tvær umsóknir, eina um gerð viðskiptaáætlunar og aðra um almennan styrk.
Hvað þarf lokaskýrslan að vera nákvæm?
Í lokaskýrslu þarf að gera grein fyrir þeim verkþáttum sem unnir voru, stöðu verkefnis í dag og hvað er framundan. Einnig þarf að fylgja kostnaðaryfirlit en kostnaður þarf að vera helmingi hærri en styrkupphæð. Mjög gott er að láta myndir af vörunni fylgja.
Skýrsluformið má finna á þínum síðum í umsóknarkerfinu og er hún send inn með rafrænum þætti.
Þarf viðskiptaáætlun að fylgja umsókn um styrk?
Ef þú ert að sækja um launastyrk þá er gerð krafa um að viðskiptaáætlun fylgi. Að öðru leyti er það ekki nauðsynlegt en hinsvegar ef áætlunin er til þá má hún fylgja með sem viðhengi.
Hverjir sitja í ráðgjafarnefndinni sem úthlutar styrkjum?
Í nefndinni sitja Bergrún Íris Sævarsdóttir, fulltrúi velferðarráðherra, Guðrún Stella Gissurardóttir, Soffía Gísladóttir, Elín Gróa Karlsdóttir og Hanna Dóra Björnsdóttir.
Þarf maður að stofna fyrirtæki til að sækja um styrk?
Nei, það er ekki nauðsynlegt að stofna fyrirtæki til að sækja um styrk.
Ef aðeins er um þjónustu að ræða en ekki vöru og maður ætlar að sækja um launakostnað, þarf maður þá að gera viðskiptaáætlun?
Ef sótt er um styrk vegna launakostnaðar þá þarf fullgerð viðskiptaáætlun að fylgja með í viðhengi.
Hvað má sækja oft um styrk fyrir sama verkefni?
Fyrirtæki/einstaklingar mega sækja tvisvar um fyrir sama verkefni, en þó ekki fyrir sama verkþátt
Ef ég fæ styrk fæ ég hann greiddann í heilu lagi eða þarf að senda reikninga fyrir því sem gert er
Helmingur styrks er greiddur út við undirskrift samnings og hinn helmingur er skýrslu hefur verið skilað en í henni þarf að útlista hvaða verkþættir voru unnir, hver staða verkefnis er. Yfirlit yfir kostnað skal fylgja skýrslunni, en ekki er nauðsynlegt að senda reikninga.
Styrkhafar hafa eitt ár frá veitingu styrks til að vinna verkefnið.