Hver er Aðalheiður ?

Ég heiti Aðalheiður Borgþórsdóttir, fædd í Vestmannaeyjum 1958 en flutti til Seyðisfjarðar með móður minni og stjúpa þegar ég var 13 ára. Ég er gift Sigfinni Mikaelssyni framkvæmdastjóra hjá Smyril Line Cargo á Seyðisfirði. Við eigum þrjú yndisleg börn sem öll eru uppkomin. Ég hætti ung í skóla og vann við ýmis störf, í fiskvinnslu, sem símadama og síðan símritari hjá Pósti og síma, og vann sem suðukona í Vélsmiðju Seyðisfjarðar um tíma þá við að smíða stálskip. Ég náði mér í tónlistarmenntun og síðar diploma í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. Ég kenndi við Tónlistarskóla Seyðisfjarðar í um 12 ár og gaf út plötu með eigin lagasmíðum og textum árið 1998. Ég starfaði sem ferða- og menningarfulltrúi hjá Seyðisfjarðarkaupstað í um 15 ár eða fram til vors 2015 síðan þá hef ég starfað sjálfstætt sem verktaki. Ég er markaðsstjóri Seyðisfjarðarhafnar í verktöku. En stærstan hluta ársins er ég að vinna að mínum eigin verkefnum sem eru í dag klasaverkefnið “Vetur á Austurlandi” og uppbygging Tindar hótels ehf.

Hver er reynsla þín sem frumkvöðull?

Ég fékk mikið frelsi í starfi sem ferða- og menningarfulltrúi, ég fékk að gera allskonar, eða kom því í gegn að gera allskonar sem ég brann fyrir. Starfið var yfirgripsmikið, það fól m.a. í sér umsjón með tjaldsvæðinu og upplýsingamiðstöð, listahátíðinni Á Seyði og þróun á ýmsum sviðum uppbyggingar í ferða- og menningar geiranum. Ég sá tækifæri útum allt og var virk í að vinna með fólki við að koma á laggirnar verkefnum sem virtust í fyrstu vera óframkvæmanleg. Mikið frumkvöðlastarf átti sér stað, ég mótaði starfið mikið til eftir mínu höfði en þó auðvitað með og undir stjórn bæjarkerfisins. Á starfstímanum vann ég m.a. að hótelverkefni sem er Hótel Aldan í dag, Skaftfelli menningarmiðstöð og LungA listahátíð svo ég nefni nokkur dæmi. Að vera frumkvöðull er skemmtilegt en oft á tíðum erfitt. Ég elska áskoranir og hef oftast synt á móti straumnum í lífinu. Sem frumkvöðull hef ég ávallt vitað að hafi ég nógu mikla trú á verkefninu þá muni ég koma því á koppinn. Ef það þarf að færa fjall þá bara geri ég það. Ég er lausnamiðuð og það hjálpar mikið í frumkvöðlastarfi. Það er ekki alltaf sýnilegt það sem frumkvöðullinn gerir og þá þarf maður að vera tilbúin til að kyngja því. Fyrir mér skiptir mestu að koma verkefninu af stað og að láta það virka.

Hvaða hugmynd ertu að vinna núna?

Í dag er ég að vinna að hótelverkefni, að þróa vetrarpakka og að markaðssetja veturinn á Austurlandi. Ég og systir mín eigum 50% í húsi sem áður var notað undir léttan iðnað og ætlum að breyta því í hótel. Meðeigendur okkar ætla að leggja sín 50% inn í verkefnið. Við systur höfum stofnað fyrirtækið Tindarhótel ehf og eigum það 100% í dag en hluthöfum mun fjölga þegar verkefnið verður að fullu fjármagnað. Fyrstu drög að hótelinu hafa verið hönnuð af Kubbafabrikkunni. Um er að ræða 42-45 herbergja hótel með veitingastað og heilsulind. Mitt hlutverk hefur verið að skrifa viðskiptaáætlun fyrir hótelið og að leita að fjárfestum, en ég fékk m.a. styrk frá velferðarráðuneytinu (Atvinnumál kvenna)  til að skrifa hana. Í dag hef ég talað við nokkra fjárfesta án þess að það hafi borið árangur. Varðandi verkefnið “Vetur á Austurlandi” þá hef ég verið í klasasamstarfi við lykilaðila í ferðaþjónustu á Seyðisfirði og Egilsstöðum. Við settum saman nokkra vetrarpakka sem ég kynni núna fyrir ferðaheildsölum og ferðaskrifstofum. Mér hefur tekist að selja einni skrifstofu pakka sem er eitt pínulítið skref á langri göngu. Ég lít á bæði verkefnin sem lið í að kynna áfangastaðinn og að byggja hann upp sem áhugaverðan kost fyrir erlenda vetrarferðamenn. Ég hef mikla trú á þessu verkefni.

Hvernig fékkstu hugmyndina?

Hugmyndin um hótelið kemur til mín í samtali við manninn minn um hvað ég gæti hugsanlega farið að gera ef ég hætti sem ferða- og menningarfulltrúi. Húsið þarf að fá nýtt hlutverk og það vantar svona hótel á Seyðisfjörð. Til þess að vetrarhugmyndin nái fram að ganga þarf að hafa hótel sem getur sinnt hópum af stærðinni 18 – 20 manns. Hugmyndin um að vinna með veturinn varð til árið 2004 í heimsókn minni til Lapplands í Finnlandi. Þeirra aðal ferðamannatímabil er frá nóvember til mars. Ég lærði frá þeim að veturinn hefur mikið aðdráttarafl og að það sé aðeins spurning um að pakka vörunni rétt inn.

Hvað er mest hvetjandi fyrir þig í þinni vinnu? Hvað er skemmtilegast?

Skemmtilegast finnst mér að skapa, hanna verkefni og útfæra. Það er líka mjög skemmtilegt að hitta fólk og að fá tækifæri til að kynna verkefnin sem maður er að vinna að hverju sinni, fá viðbrögð hvort sem þau eru jákvæð eða ekki. Þá á ég við ef þau eru uppbyggileg og ég get nýtt mér þau til að laga verkefnið eða að fá fullvissu um að ég sé á réttri braut. Ég hef fengið marga til þess að rýna þetta verkefni og það hefur verið mjög lærdómsríkt ferli.

Hvað er erfiðast að takast á við sem frumkvöðull?

Það er höfnunin, að fá mikið af nei-um. Að fá mikið af mótbárum jafnvel að fólk vinni á móti þinni hugmynd. Það að glíma við fordóma og neikvæð viðhorf er oft á tíðum hvað erfiðast.

Hver eru næstu skref hjá þér?

Næstu skref er að kynna bæði verkefnin, leita að fjárfestum fyrir hótelið, fara á sýningar og í heimsóknir til ferðaskrifstofa með vetrarpakkana bæði hér heima og erlendis. Ég er um þessar mundir að setja upp síðu sem heitir Onestopshop.is og þar er að finna alla vetrarpakkana og einnig upplýsingar um alla þá aðila sem eru með í verkefninu.
Getur þú gefið öðrum frumkvöðlakonum góð ráð?

Já, ekki gefast upp þótt á móti blási, seiglan er mikilvæg!

Skoða má heimasíðu Aðalheiðar hér

 

Related Posts