Styrkjum til atvinnumála kvenna var úthlutað þann 19.maí og fengu 35 verkefni styrki að upphæð kr. 35.000 milljónir. Þorsteinn Víglundsson, velferðar- og húsnæðismálaráðherra afhenti styrkina í athöfn sem fór fram í Hörpu.
Í ár bárust 350 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið umsóknir á undanförnum vikum.

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað síðan 1991 og eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun.
Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum.  Unnt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Hæstu styrki hlutu þær Ragnheiður Þórarinsdóttir fyrir verkefnið Samrækt sem snýst um að byggja upp samræktarkerfi fyrir fiskeldi og grænmetisræktun, Asco Harvester  fyrir verkefnið Asco Harvester sjávarsláttuvélina,  Hanna Jónsdóttir fyrir verkefnið Hjúfra – örvandi og umvefjandi ábreiða fyrir fólk með minnisglöp og alzheimer  og Verandi fyrir verkefnið  VERANDI- framleiðsla á húð-og hárvörum úr endurnýttum hráefnum.

Á undanförnum árum hafa styrkveitingarnar stutt við þróun fjölmargra nýrra fyrirtækja   sem skapa störf, samfélaginu til hagsbóta.  Einnig er styrkveiting sem þessi mikil hvatning fyrir styrkhafa sem er ekki síður mikilvæg þegar á hólminn er komið.

Hér má finna lista yfir styrkhafa ársins 2017

Úthlutun 2017 – AMK

 

 

Related Posts