Ásmundur Einar Daðason,  félags- og barnamálaráðherra, úthlutaði í dag styrkjum til atvinnumála kvenna  og hlutu 44 verkefni styrki að fjárhæð 40.000.000 kr.

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru þeir ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi.

Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum. Unnt er að sækja um styrki vegna vinnu við gerð viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Í ár bárust 300 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið þær á undanförnum vikum. Nefndina skipa þær Herdís Á. Sæmundardóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir, Elín Gróa Karlsdóttir, Elín Sigríður Þórðardóttir og Kolbrún Ágústa Guðnadóttir.

Hæsta styrkinn í ár, 4.000.000 m.kr. fær Algina en verkefnið snýst um að rannsaka og meta eiginleika þangs sem nýtt er í framleiðslu á lífplasti undir merki Þaraplasts.  Þannig verða eiginleikar þangsins kortlagðir og skoðað hvernig uppruni þess getur haft áhrif á eiginleika lífsplastsins.

Næsthæsta styrkinn, kr. 3.000.000 hlaut Sigríður Kristinsdóttir en verkefni hennar snýst um að koma nokkrum frumgerðum af lífplasti fyrir matvælapakkningar, unnu úr efnum í brúnþörungum, yfir á framleiðsluhæft form.

Sérstakan hvatningarstyrk að upphæð kr. 1.000.000 hlaut Fæðingarheimili Reykjavíkur en þær munu leggja sérstaka áherslu á að sinna konum af erlendum uppruna í sinni þjónustu.

Af öðrum spennandi verkefnum má nefna fæðubótarefni með lifandi gerlum, vinnsla á rauðrófum, þróun ávaxtavíns, mjólkurvinnsla, ostrusvepparæktun, þróun á húðvörum úr hörpuskel, smáforrit til að aðstoða einstaklinga sem glíma við fíknisjúkdóma, framleiðsla á smáhýsum og ný aðferð við framleiðslu á fatnaði svo e eitthvað sé nefnt.

Hér má sjá lista yfir styrkhafana

Styrkúthlutanir 2021

Related Posts