Ertu ráðgjafi eða sjálfboðaliði ? Viltu auka hæfni og færni þína?

Vinnumálastofnun er einn þátttakanda af fjórum í Evrópuverkefni sem ber nafnið EMPOWER. Eitt af markmiðum verkefnisins er að þróa fræðsluefni fyrir ráðgjafa og sjálfboðaliða sem vinna með konum/fólki sem eiga undir högg að sækja af félagslegum ástæðum (fíkniefnavandi, ofbeldi, fátækt, atvinnuleysi ofl.).

Með námskeiðinu gefst  ráðgjöfum/sjálfboðaliðum tækifæri til að efla eigin persónu- og starfshæfni og verða þar með hæfari í sínu starfi.

Á námskeiðinu fara þátttakendur í gegnum sjálfsskoðun og verða fjölbreyttar æfingar og verkefni hluti af þeirri rýni.  Námsefnið samanstendur einnig af námsþáttum sem  að efla styrkleika og seiglu til að takast á við nýjar áskoranir ásamt markmiðasetningu.

Námskeiðið fyrir ráðgjafa hefst þann 28. september og lýkur 30 nóvember, en alls er um fjóra námsdaga að ræða.   Einnig er boðið upp á vinnu í hæfnihringjum þar sem tækifæri gefst til umræðu um þau verkefni og vandamál sem ráðgjafarnir/sjálfboðaliðarnir standa frammi fyrir.

Eitt námskeið hefur þegar verið haldið og þetta höfðu þátttakendur að segja:

„Eitt besta námskeið sem ég hef farið á og mun klárlega nýta mér efnið í vinnu minni og í lífinu almennt. Kærar þakkir fyrir mig!“

„Já, ég myndi mæla með þessu námskeiði og hef þegar gert það í vinnunni“.

„Námskeiðið var mjög vel skipulagt og efnið áhugavert. Góð verkefni sem nýtast beint í vinnu, hef nú þegar haldið námskeið og nýtt efni þess“.

„Frábært námskeið í alla staði. Maður fær góð og nytsamleg verkfæri í hendur sem hægt er að nýta beint í ráðgjöf“.

Pláss er fyrir 10 ráðgjafa/sjálfboðaliða á námskeiðunum og 5 í hæfnihringjunum.  Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu og munu þeir fá staðfestingu á námi að því loknu.

Samstarfsaðilar eru fjórir; Inova í Bretlandi, Vinnumálastofnun á Íslandi,  KMOP á Grikklandi og SIF  í Litháen en Inova stýrir verkefninu.

Starfsmenn EMPOWER hjá Vinnumálastofnun eru þær Ásdís Guðmundsdóttir,Ingibjörg Ebba Björnsdóttir og Sigrún Rós Elmers og veita þær allar nánari upplýsingar.

asdis.gudmundsdottir@vmst.is
ingibjorg.bjornsdottir@vmst.is
sigrun.elmers@vmst.is

Hægt er að sækja um þátttöku í námskeiðinu með því að smella hér:

https://goo.gl/forms/vszbsPQiouhXIa5U2

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu þess:

www.empoweringwomen.eu

Related Posts