Kolbrún Hrafnkelsdóttir er frumkvöðull mánaðarins hjá Atvinnumálum kvenna en hún er lyfjafræðingur og hugmyndasmiðurinn bak við fyrirtækið Florealis. Þar eru þróuð og framleidd jurtalyf en Florealis er fyrsta íslenska fyrirtækið sem haslar sér völl á þeim vettvangi. Hún er lyfjafræðingur að mennt og hefur unnið ýmis verkefni á þeim vettvangi allt þar til hún stofnaði fyrirtækið árið 2013. Nú starfa alls níu starfsmenn hjá fyrirtækinu og er spennandi vöruþróun framundan.  Við gefum Kolbrúnu orðið:

Eftir að ég útskrifaðist sem lyfjafræðingur fór ég að vinna að lyfjaþróun og rannsóknum því tengdu. Ég kom að mörgum krefjandi verkefnum á sviði ónæmisfræði og lyfjagerðarfræði, til dæmis þróun bóluefna og þróun efna sem hjálpa erfiðum lyfjasameindum aðgengi inn í líkamann. Skemmtilegustu verkefnin fólust í að finna lækningu á sjálfsofnæmissjúkdómum sem ég vann að með þekktum vísindahópi í Utrecht í Hollandi. Á rannsóknarárunum mínum fékk ég birtar vísindagreinar í virtum erlendum tímaritum um þessar rannsóknir. Eftir að ég kláraði MBA nám þokaðist ég meira inn á viðskiptahliðina og stjórnun í starfi mínu. Ég fékk ómetanlega reynslu í krefjandi umhverfi hjá stóru lyfjafyrirtæki, Actavis, en þar stjórnaði ég alþjóðlegum þróunarhópum sem unna að lyfjaþróun á mismunandi stöðum í heiminum. Eftir þessa reynslu hef ég heillast meira af því að vinna í alþjóðlegu umhverfi enda eru áskoranirnar þar mjög fjölbreyttar sem á vel við mig.

Undanfarin 5 ár hef ég helgað mig því verkefni að byggja upp Florealis ásamt mjög öflugu teymi, en þessi tími hefur verið ævintýralegur tími og verkefnin margvísleg.

Mér hefur aldrei tekist að leiðast í vinnunni, enda hef ég verið það heppin að hafa átt fjölbreyttan og spennandi starfsferil.

Ég á mörg áhugamál og mikið af vinum sem mér finnst gaman að hitta í mínum frítíma og stóra fjölskyldu. Mér finnst gaman að fara á tónleika, í leikhús eða á sýningar. Mér finnst gaman að ferðast með vinum og fjölskyldu og er Frakkland í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Ég les mikið, spila stundum á píanó og finnst gaman að sinni garðinum á sumrin. Á veturna fer ég alltaf í eina eða tvær borgarferðir og reyni að fara öðru hverju á skíði með fjölskyldunni, en reyndar eru tvær skíðaferðir bókaðar þennan veturinn.

Segðu okkur frá Florealis

Florealis er fyrsta fyrirtækið til að skrá jurtalyf á Íslandi en hingað til hafa þau verið ófáanleg hérlendis. Núna bjóðum við upp á jurtalyf við þvagfærasýkingum, liðverkjum og svefn- og róandi lyf, fleirri spennandi lyf eru á leiðinni á markaðinn. Ásamt þessu höfum við á boðstólnum bæði kvennvöru- og húðvörulínu.

Florealis sérhæfir sig í að bæta lífsgæði fólks. Við teljum að í framtíðinni muni fólk hugsa enn meira um heilsu sína og hvernig hægt er að viðhalda góðri heilsu til lengri tíma. Við ætlum okkur að vera virkir þátttakendur í þessari bylgju og bjóðum fólki upp á lyf og lækningarvörur við vægum sjúkdómum og óþægindum. Við leggjum einnig mikið upp úr því að veita vandaða fræðslu sem tengist þessum sjúkdómum og erum í samstarfi við pistlahöfunda með mismunandi sérsvið.

Hvað finnst þér skemmtilegast við vinnuna?

Það veitir mér mikla orku og ánægju að finna það sem ég er að gera skiptir máli fyrir fólk. Það veitir lífsfyllingu að finna að maður eigi þátt í því að lina þjáningar og bæta heilsu. Þetta var það sem dró mig inn í lyfjageirann í upphafi, þ.e. að ólíkt mörgum öðrum vörum er eftirspurnin til staðar löngu áður en að varan verður til. Það er okkar að þróa lyf og lækningu við sjúkdómum og þjáningum.  Mér finnst gaman að kynnast nýju fólki og í starfi mínu eru næg tækifæri til þess. Ég held að það sé einnig mikilvægur hluti af vinnuumhverfi mínu og það sem hefur gefið mér einna mest í gegnum árin.

Hverjar eru helstu áskoranirnar sem þú stendur frammi fyrir?

Mér hefur stundum fundist áskorun að finna jafnvægi, þegar mikið er um að vera í vinnunni má það ekki bitna á fjölskyldulífinu. Ég reyni að skipuleggja daginn þannig að ég geti eytt seinnipartinum með fjölskyldunni og ef mér hefur ekki tekist að klára vinnudaginn þá fer ég frekar aftur í vinnuna á kvöldin. Hingað til hefur þetta yfirleitt gengið ágætlega en maður verður að vera meðvitaður um það hvar maður sjálfur vill eyða kröftum sínum.

Hvert sækir þú stuðning?

Ég á mjög gott net bakhjarla, bæði fólk sem ég hef kynnst í kringum vinnuna, skólafélagar og vinir. Ég leita mikið til fólksins í kringum mig og það hefur yfirleitt reynst mér best að vera opin og heiðarleg. Mér þykir líka vænt um þegar fólk leitar stuðnings hjá mér og það gefur mér mikið að geta lagt mitt af mörkum.

Hver er þín helsta fyrirmynd?

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, stjórnarformaður Florealis. Hún er mögnuð kona og alltaf tilbúin að leggja sitt af mörkum.

Hver eru næstu skref hjá fyrirtækinu?

Við erum að koma með fleirri spennandi lyf á markað á næstu vikum. Þar má nefna Glitinum sem fyrirbyggir mígreni, Urtitude sem er við vægu þunglyndi og Femonia sem er við fyrirtíðarspennu hjá konum. Femonia er fimmta varan í kvennvörulínunni okkar sem er orðin mjög sterk, hún inniheldur vörur við óþægindum á kynfærasvæði s.s. sýkingum og leggangaþurrki, lyf við endurteknum þvagfærasýkingum hjá konum sem er viðurkennd meðferð án sýklalyfja og Femonia verður flott viðbót við línuna. Þessi lína okkar hefur vakið mikla athygli utan Íslands og erum við farin að selja þær í netverslunum þremur stærstu apótekskeðjanna í Svíþjóð. Við erum í viðræðum við sænsk apótek að taka vörurnar til sölu í verslunum sínum svo það eru spennandi tímar hjá okkur framundan.

Að lokum; Getur þú gefið öðrum frumkvöðlakonum góð ráð?

Jákvætt viðhorf og lausnamiðað umhverfi hefur alltaf reynst mér vel. Það er mjög mikilvægt að rækta vel tengslanetið sama hvort það sé í vinnuumhverfi eða annars staðar. Svo er auðvitað best að finna sér verkefni sem maður brennur fyrir, það er hægt að koma ótrúlegustu hlutum í verk ef maður bara trúir á þá og fær til liðs við sig rétta fólkið. Florealis er frábært dæmi um það.

 

 

Related Posts