Hjónin Sigríður Káradóttir og Gunnsteinn Björnsson reka fyrirtækin Atlantic Leather og Gestastofu sútarans á Sauðárkróki. Hjá Atlantic Leather eru skinn og roð sútuð og seld aðallega erlendis, en sútað og litað roð er mjög vinsælt í tískuvörur af ýmsu tagi. Fyrirtækið er einstakt í sinni röð því ekkert annað fyrirtæki sútar roð í Evrópu. Við forvitnuðumst um fyrirtækið og tókum Sigríði tali.

Hver er Sigríður Káradóttir?

Ég er fædd og uppalin hér á Sauðárkróki, móðir mín kemur af Akratorfunni hér í Blönduhlíðinni en pabbi flutti í bæinn tíu ára gamall af Seltjarnarnesinu. Ég er gift honum Gunnsteini og eigum við fjögur börn og fjögur barnabörn.  Gunnsteinn er frá Ketu á Skaga og erum við bæði afar sátt við að búa í Skagafirðinum okkar.  Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að skapa og búa til eitthvað fallegt, hef líka mikinn áhuga á margskonar félagsstarfi og ekki síst því sem byggir upp samfélagið og gerir okkur að betri manneskjum.

Hjá Atlantic Leather er bæði verið að súta skinn og roð en starfsmenn þess eru  átján talsins.  Gestastofa Sútarans var svo sett á laggirnar árið 2010  og þar tökum við á móti gestum sem vilja koma og skoða verksmiðjuna og kaupa afurðir úr skinni og roði.  Gestir fara með okkur  í gegnum verksmiðjuna til að sjá hvernig hrátt skinn verður að lúxus leðri og er það mjög vinsælt að sjá fólk að störfum.   Svo endar fólk í Gestastofunni og getur þá keypt sér vörur úr leðri og skinni. Einnig erum við með fullbúna saumastofu hér og bjóðum uppá vinsæl námskeið í leðursaumi þar. Við fengum strax mjög góðar viðtökur og erum við að taka á móti um 30.000 gestum á ári hverju.

Hvernig byrjaði þetta ?

Íslendingar eru fiskveiði þjóð og þá fannst okkur það passa að  þróa nýtingu á skinni af fiski eins og af lambi og hreindýri. Fyrirtækið er líka einstakt, ekki bara á Ísldi því þetta er eina fyrirtækið sem sútar roð í Evrópu. Þessi vara er mjög vinsæl í tískuvörur af ýmsu tagi og eru 95% af okkar hráefni selt erlendis.  Hinsvegar varð Gestastofan til vegna þess að þörfin fyrir sölu á skinni var til staðar ásamt því að viið sáum tækifæri í afþreyingu í ferðaþjónstu.  Ári eftir þuftum við að stækka verslunina og í framhaldinu settum við upp saumastofuna og var hugmyndin að nýta hana utan hins hefðbundna ferðaþjónustutímabils.

Hverjar eru mestu áskoranirnar sem þú stendur frammi fyrir sem frumkvöðull?

Það eru miklar og stórar áskoranir í því að setja upp nýjungar, en það er einna helst að mæta eigin væntingum um fagmennsku og gæði vörunnar og láta þær passa inní rammann sem settur er varðandi fjármagn og kynningarmöguleika. Ég hef sótt um styrki og fengið nokkra sem er algjörlega nauðsynlegt til að komast af stað, en ég gætti þess að taka og nota bara það sem þarf fyrir byrjunina.

Hvað er ánægjulegast að upplifa?

Það er sá mikli meðbyr sem kemur frá öllu samfélaginu, og að sjá fyrirtækið vaxa og dafna og veita fólki störf.

Hvað er framundan hjá fyrirtækinu?

Hjá Gestastofunni er aðalvertíðin framundan, það er, ferðamannatímabilið, og er það alltaf mjög skemmtilegur tími og allir leggjast á eitt að þjónusta alla gesti vel. Í  vetur hefur verið í gangi hönnunarvinna og undirbúningur fyrir framleiðslu á okkar eigin vörulínu úr lamba-og fiskleðri en þær vörur verða seldar í Gestastofunni og öðrum álíka búðum í Evrópu. Við undirbúum nú enn meiri markaðssókn inn á Bandaríkjamarkað hjá Atlantic Leather. Einnig var að fara af stað stórt samvinnuverkefni þar sem Atlantic Leather er samstarfsaðili í og heitir Worth Partnership Project. Það snýst um að  leiða saman hönnuði og framleiðendur og er verkefninu stýrt af Elisu Palomino frá Saint Martins College of Art and Design í London.   Þetta er eftirsótt verkefni og mjög erfitt að komast að en við hlökkum við mikið til að fá að vera með í þessu.

Hvað myndir þú ráðleggja öðrum frumkvöðlakonum?

Lykilinn er að útbúa allt kynningarefni og kynningu strax og að skapa væntingar hjá viðskiptavinum.  Þegar þú svo opnar þá er vonandi farið að bíða eftir vörunni eða þjónustunni.   Það er ekki gott að vinna alla vinnuna og fara svo að kynna verkefnið fyrir markhópnum, þá er alltof langur tími sem engin innkoma er og þá er erfitt að hald sjó. Svo þarf auðvitað  að vinna rannsóknarvinnu og skoða markhópinn, hver er hann og miða allt efni við það.  Svo er mikilvægt að hafa óbilandi trú á verkefninu og sjálfum sér!

 

Fallega litað roð

Töskur

Skinnaverkun

 

Related Posts