Lokaráðstefna Free verkefnisins var haldin á Sauðárkróki þann 18 apríl í blíðskaparveðri. Ráðstefnuna sóttu í kringum 60 frumkvöðlakonur allt frá Öxarfirði til Hvammstanga en ennfremur var kynning á fyrirtækjum í eigu kvenna á svæðinu.  Eftir kynningu á verkefninu var boðið upp á þrjár örvinnustofur, í markaðssetningu á netinu, stefnumótun og hönnunarhugsun í fyrirtækjarekstri.

Ráðstefnan er lokahnykkur Evrópuverkefnis sem heitir Free (Female Rural Enterprise Empowerment) en markmið þess er að styðja við bakið á frumkvöðlakonum á landsbyggðinni, og þá einkum og sér í lagi á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. Þessi svæði voru sérstaklega valin vegna neikvæðrar íbúaþróunar og þeirra staðreyndar að konum hefur farið fækkandi á þessum svæðum.

Vinnumálastofnun stýrir verkefninu en auk þess taka þátt aðilar frá Bretlandi, Litháen, Króatíu og Búlgaríu auk Byggðastofnunar á Íslandi.

Meðal afurða verkefnisins er námssíða með ýmsum námsþáttum, svo sem stefnumótun og útflutningi, vöruþróun, netsölu, markaðssetningu á samfélagsmiðlum og fjármálum.  Þar er einnig hægt að nálgast gagnvirkar æfingar/verkefni sem miða að því að efla persónulega hæfni.  Í öðru lagi tóku frumkvöðlakonur þátt í jafningjafræðslu í gegnum hæfnihringi,  þar sem þær hittust á Skype, deildu reynslu, settu sér markmið og unnu aðgerðaráætlun í tengslum við þessi markmið. Í þriðja hafa fjölmargar konur tekið þátt í  tengslaneti á hverju svæði sem stýrt var af frumkvöðlakonum á svæðinu.

Hægt verður að nálgast efnið á heimasíðunni áfram og hvetjum við frumkvöðlakonur að skrá sig þar. Einnig eru hugmyndir hjá Atvinnuþróunarfélögum um að notfæra sér aðferð hæfnihringja á netinu og einnig eru vonir bundnar við að tengslanetin haldi áfram starfsemi sinni.  Á heimasíðunni verður einnig hægt að nálgast leiðbeiningar fyrir stefnumótunaraðila og handbækur fyrir þá sem stýra hæfnihringjum og tengslanetum.

www.ruralwomenacademy.eu

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar á ráðstefnunni.

 

 

Related Posts