Á hverju ári fara fjölmargir atvinnuleitendur í gegnum viðskiptahraðalinn Frumkvæði á vegum Vinnumálastofnunar. Verkefnið gerir atvinnulausum frumkvöðlum kleift að vinna að sinni viðskiptahugmynd í 6 mánuði en að þeim tíma loknum á viðkomandi að hafa getað stofnað eigið fyrirtæki og skráð sig í fullt starf eða hlutastarf. Um 230 verkefni hafa farið í gegnum hraðalinn og 80 fyrirtæki hafa verið stofnuð sem er þriðjungur þeirra verkefna sem fara í gegnum hraðalinn. Einnig býður Vinnumálastofnun upp á styttri vinnustofu fyrir frumkvöðla, sem geta í framhaldinu tekið þátt í Frumkvæði.

Ásdís Guðmundsdóttir er verkefnastjóri Frumkvæðis

Í reglugerð um vinnumarkaðsaðgerðir er kveðið á um að atvinnuleitendum sé gefinn kostur á því að skapa eigin störf að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þannig þarf viðkomandi ekki að vera í virkri atvinnuleit, þarf að kynna sér stofnun og rekstur fyrirtækja og skila inn viðskiptaáætlun eða ígildi hennar.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands var með samning við Vinnumálastofnun um námskeiðahald og hélt NMÍ staðnámskeið á íslensku. Eftir að stofnunin var lögð niður var lögð talsverð vinna í að endurskoða úrræðið og aðlaga að nýjum og breyttum aðstæðum og kröfum, til dæmis varðandi möguleika á fjarnámi og aðkomu þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Nýtt form var svo kynnt til leiks um miðbik ársins 2021 þar sem þátttakendur hittast á Teams í 10 skipti með aðstoð handleiðara. Um er að ræða annarsvegar enskumælandi fólk og hinsvegar íslenskumælandi allstaðar af landinu. Nú þegar hafa 230 atvinnuleitendur/teymi lokið úrræðinu og um 80 fyrirtæki hafa verið stofnuð og atvinnuleitendur þannig skráð sig annaðhvort af bótum eða í hlutastarf.

Mikilvægur partur af hraðlinum er jafningjafræðsla þar sem uppbyggileg gagnrýni fer fram í hópnum og þátttakendur deila reynslu og þekkingu. Svo halda þátttakendur oft samskiptum og samstarfi áfram eftir að verkefninu lýkur og má með sanni segja að þarna byggist upp verðmætt tengslanet sem nýtist í fyrirtækjarekstrinum.

Verkefnin eru mjög fjölbreytt og má þar nefna til dæmis hundasnyrtistofu, birtingafyrirtæki, ísbúð, gróðurhús, saumastofu, iðjuþjálfun, ferðaþjónustu, svepparæktun, listasmiðju, sérhæfð barnaleikföng, gullsmiðju, lífræna sælgætisframleiðslu, markþjálfun, líkamsræktarstöð, ullarsmiðju, matvörubúð, dansstúdíó, vetnisframleiðslu, naglastofu, markaðsráðgjöf, matarvagn, spa, gleðismiðju, vistvæn duftker, fatahönnun, ræktun iðnaðarhamps, birtingarfyrirtæki, rafeldsneyti, kvikmyndafyrirtæki, grasalækningar og föt fyrir veiðimenn.

Að lokum má geta þess það Vinnumálastofnun hefur nú fengið samþykkt Evrópuverkefni sem hefur það að markmiði að þróa netfræðslu fyrir þátttakendur í Frumkvæði. Vinnumálastofnun leiðir verkefnið og eru samstarfsaðilar frá Hollandi, Frakklandi og Spáni. Þetta verður mikilvæg viðbót við þá fræðslu sem nú þegar er til staðar og mun efla verkefnið og styrkja.

 

Hvað snýst hraðallinn um?

Einar Sigvaldason hjá Senza partners sér um framkvæmd fyrirtækjasmiðjunnar sem stendur yfir í rúma 2 mánuði á Teams.  Þjálfunin og fræðslan er á vegum Senza Partners en þátttakendur undirbúa og halda kynningar í formi lyfturæðu, gefa stöðuskýrslu og halda tvisvar sinnum 5 mínútna fjárfestakynningu. „Það eru þrjú grunnatriði sem ég er að fara í gegnum með þeim“segir Einar Sigvaldason stjórnendaþjálfi hjá Senza Partners. „Í fyrsta lagi er það LEAN aðferðafræðin sem gengur út á að ýta fólki upp úr skrifborðsstólnum og út meðal framtíðarviðskiptavina og prófa þar að selja eða kanna viðhorf til þess sem við köllum lágmarksvöru (e. minimum viable product MVP). Ennfremur forma þátttakendur viðskipta- og fjárhagsáætlun sem í lok fyrirtækjasmiðjunnar á að hjálpa fólki að meta hvort verkefnið sé raunhæft og unnt að búa til starf. Í þriðja lagi fá þátttakendur fræðslu um allt sem snýr að því að kynna verkefnin sín. Þar er mikilvægt að tileinka sér hugsun sölumannsins, að vera sífellt tilbúinn að bresta í kynningarhaminn (e. pitch mode). Einnig er svo sérstakur tími um stofnun fyrirtækja, sölu, fjárhagsáætlanir og fjármögnunarmöguleika“.

„Í fyrirtækjasmiðjunni er mest um að ræða smærri fyrirtæki sem samt sem áður eru líkleg til að halda velli ef fólk temur sér ákveðin grunn vinnubrögð sem við reynum að kenna þeim.  Þetta eru um 80 fyrirtæki sem okkur telst til að séu enn í blómlegum rekstri af þeim 233 sem hafa útskrifast sem er gríðarlega hátt árangurshlutfall.  Það er gaman að taka þátt í þessu jákvæða verkefni og fylgjast með þessum verkefnum verða að veruleika.

Hver er upplifun þátttakenda?

Ein af þátttakendum í Frumkvæði er Helen Cova, en hún rekur útgáfufyrirtækið Karíba. Hún er rithöfundur og þýðandi frá Brasilíu og býr á Flateyri.

Hvaða hugmynd varst þú með í kollinum?

Hugmyndin mín var að stofna bókaútgáfu en ekki venjulega útgáfu sem myndi hugsanlega týnast í bókaútgáfuveröldinni á Íslandi.  Ég fékk þá hugmynd að stofna útgáfu sem myndi verða brú á milli bókmennta frá Suður-Ameríku og bókmennta frá Íslandi.  Við hjá Karíba útgáfunni gefum út Suður-amerískar bækur á Íslandi og íslenskar bækur í Suður-Ameríku.

Lýstu aðeins þátttöku þinni í Frumkvæði

Mér fannst æðislegt að taka þátt í Frumkvæði. Ég lærði mjög mikið, fékk tíma til að þróa fyrirtækið mitt og var alltaf í góðu samfélagi við aðra þátttakendur. Kennarar voru mjög hjálplegir og allt sem ég lærði var mjög mikilvægt og ég er í rauninni að nýta alla þekkinguna sem ég fékk í Frumkvæði í rekstrinum í dag.

Hvernig er staðan í dag hjá fyrirtækinu í dag?

Í ár gáfum við út 2 bækur í ár eftir mig sem heita Ljóð fyrir klofið hjarta, sem er ljóðabók og Svona tala ég sem er barnabók. Þetta er mjög góður árangur miðað við að um er að ræða fyrsta rekstrarár Karíbu. Næsta ár ætlum við að þýða og gefa út fyrstu bókina frá Suður-Ameríku ásamt því að þýða og gefa út fyrstu íslensku bókina í Suður-Ameríku. Á teikniborðinu er einnig borðspil og svo kemur kannski út önnur bók eftir mig hér á Íslandi.

Áttu einhver hvetjandi orð til frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref?

Þetta á ekki að vera flókið, og það er eðlilegt að gera mistök því þetta snýr ekki um að gera allt fullkomið strax eða gera hluti hratt, heldur að halda áfram að gera það sem maður elskar. Það getur verið skelfileg tilhugsun að stofna sitt eigið fyrirtæki en mér finnst enn verra að láta óttann sigra og svipta heiminn okkar góðu hugmyndum.

 

Jón Páll Helgason er einn þeirra þátttakenda í Frumkvæði og starfar nú í fullu starfi hjá sínu fyrirtæki, Nordic development partners   Hann er frá Neskaupstað og Reyðarfirði og hefur starfað sem verkefnastjóri frá HR. Hann er einnig forsvarsmaður fyrirtækisins Ekkert mál.

Hver er viðskiptahugmyndin?

Upphaflega viðskiptahugmyndin var ýmis ráðgjafaþjónusta og þjálfun. Planið var að safna saman nokkrum ólíkum verkefnum sem ég hafði tækifæri til að grípa og búa þannig til atvinnu fyrir sjálfan mig. Eitt þessara verkefna var samstarf við ráðningaskrifstofu í Noregi en það verkefni átti eftir að þróast og ala af sér mun meira samstarf. Í dag rekum við íslenska fyrirtækið Nordic Development Partners en fyrirtækið er sérhæfð ráðningarskrifstofa og þjónustar fyrst og fremst stóriðju hér á landi ásamt ýmsum atvinnugreinum því tengdu. Við búum að góðu tengslaneti víða um Evrópu og vinnum saman að því að mæta þörfum viðskiptavina en ekki síst þörfum þeirra starfsmanna sem við ráðum. Við veljum viðskiptavini vel og einbeitum okkur að því að finna gott vinnuumhverfi fyrir gott fólk.

Hvernig var þín upplifun af þátttöku í Frumkvæði?

Þátttakan í frumkvæði var lykilþáttur að þetta allt saman gekk eftir. Það reyndist mjög gagnlegt að fá fræðslu og eftirfylgni frá reynslumiklum leiðbeinendum ásamt verkefnavinnu sem nýttist vel til að halda sér við efnið. Persónulega þótti mér skemmtilegt að fá uppbyggilega gagnrýni sem og stuðning frá öðrum í svipuðum sporum, þá ýtti það líka undir keppnisskapið sem getur verið góður drifkraftur þegar annað bregst. Frumkvæði veitti mér líka það svigrúm sem þurfti til að taka stökkið til fulls, það að skapa mitt eigið hafði lengi verið draumurinn. Í mínu tilfelli þurfti ekki nema grunntekjur í nokkra mánuði ásamt smá eigin fé til að geta full einbeitt mér að koma rekstrinum af stað og taka sénsinn. Öll þurfum við að eiga salt í grautinn.

Hver er staða fyrirtækisins í dag?

Til dagsins í dag, í gegnum þetta samstarf, höfum við haft tækifæri til að greiða á þriðja hundrað milljónir í laun til starfmanna og launatengd gjöld. Má því segja að fjárfestingin frá Frumkvæði hafi margborgað sig. Þó ég sé nokkuð stoltur af árangrinum hingað til þá er mikið verk eftir og alltaf hægt að gera betur. Fyrirtækið er enn ungt og í samstarfi við okkar einstaklega góðu viðskiptavini hlakkar okkur til að halda áfram að skapa fjölbreytt og gefandi atvinnutækifæri á Íslandi.

Hvað viltu segja þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í fyrirtækjarekstri?

Mér datt í hug ferskeytla sem ég ritaði upp við eitt tækifærið sem kann að gefa smá innsýn inn í frumkvöðlastarfið.

Veit ég ekki mitt rjúkandi ráð
ráfandi fram og aftur
En ef betur er að gáð
ólgar í mér lífsins kraftur

Við höfum ekki öll svörin og oft þurfum við að treysta á þennan innri kraft til að drífa okkur áfram. Það sem ég hef lært hingað til er að það verða mistök, þá verður maður að vera tilbúinn að læra og sýna sér mildi. Hugarfarið er mikilvægt og hjálpar þá að hafa líkama og sál í sæmilegu formi. Það kostar yfirleitt lítið að vera sanngjarn og góður við náungann og ég tel að það komi margfalt til baka þó útlitið sé stundum annað.

Þá hvet ég flesta til að æfa sinn innri sögu- og sölumann. Það þýðir lítið að vera með bestu hugmyndina/þjónustuna/vöruna ef þú nærð fólki ekki með þér í lið og inn fyrir dyrnar.

Ásdís Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Frumkvæðis

Ásdís Guðmundsdóttir hjá Vinnumálastofnun

Einar Sigvaldason hjá Senza partners

Helen Cova hjá Karíba útgáfunni

Jón Páll Helgason hjá Nordic Development Partners

 

Related Posts