Fræðsla

Aðalmarkmið Free verkefnisins, sem er styrkt af Evrópusambandinu,  er að aðstoða frumkvöðlakonur á landsbyggðinni til að koma hugmyndum sínum og fyrirtækjum á framfæri með fræðslu og hvatningu en markhópurinn er konur sem hafa nú þegar viðskiptahugmynd sem þær vilja hrinda í framkvæmd eða hafa nýlega stofnað fyrirtæki. Verkefnið er tilraunaverkefni og verður í boði á ákveðnum stöðum í fimm löndum sem eru Ísland, Bretland, Króatía, Litháen og Búlgaría einkum á svæðum sem hafa glímt við fábreytni í atvinnulífi og neikvæða byggðaþróun.  Á Íslandi verður verkefnið í boði á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi.

Markmiðið er að aðstoða frumkvöðlakonurnar til að komast yfir hindranir með því að styrkja hæfni og færni þeirra, veita stuðning í formi fræðslu og hagnýtra tækja til eflingar og hvatningar ásamt því að efla tengslanet þeirra.

Mikilvægur hluti verkefnisins snýst um að bjóða upp á nám/þjálfun á netinu þar sem áherslan er á færni sem tengist fyrirtækjarekstri, en auk þess verður boðið upp á þjálfunarhringi sem byggja á hugmyndafræði sem Inova á Bretlandi sem fyrirtækið hefur þróað á síðustu árum en Inova hefur langa reynslu í að þjálfa frumkvöðlakonur.  Notast er við aðferðir aðgerðarnáms  við lausn vandamála og unnið með markmiðasetningu og sjálfsskoðun.  Þar sem námsefni verður miðlað í gegnum netið, geta konur frá öðrum landshlutum nýtt sér það, en unnið verður sérstaklega með konum á fyrrnefndum svæðum þar sem verkefnið er tilraunaverkefnisem er miðað við ákveðin einkenni samfélags.

Tengslanet á svæðunum verður sett upp, en leiðtogar þess munu fá fræðslu í hugmyndarfræði Samfélagslegs náms og þróunar (Community Driven Learning and Development).

Ennfremur verða þróaðar hagnýtar leiðbeiningar fyrir stefnumótunaraðila, þar sem tillögum og ráðleggingum varðandi stuðning við hópinn verður komið á framfæri.

Allir samstarfsaðilar hafa mikla reynslu í að vinna með frumkvöðlakonum  og hafa vítt tengslanet til kynningar á því.

Fyrsti hluti verkefnisins  er þegar hafinn en sá verkþáttur er rannsókn á stöðu kvenna í dreifbýli, þar sem notast er við rýnihópa, rýni á fyrirliggjandi gögnum og netkönnun til frumkvöðlakvenna.

Í verkefninu felast mikil tækifæri fyrir konur sem hafa drauma um að vinna við sitt eigið fyrirtæki.

Nú er því tíminn til að láta drauma þína um eiginn rekstur verða að veruleika!

Ef þú hefur áhuga á því að taka þátt eða fylgjast með, þá hvetjum við þig til að fylgja okkur á samfélagsmiðlunum FacebookTwitter  og Linkedin   og/eða skrá þig á netpóstlista á heimasíðunni til að fylgjast með fréttum af verkefninu!

Nýttu þér aðstoðina og sæktu um að vera með í tilraunaverkefninu en fræðslan verður án endurgjalds þar sem um tilrauna- og þróunarverkefni er að ræða sem styrkt er af Evrópusambandinu.

Nánari upplýsingar á námsssíðu verkefnisins www.http://www.ruralwomenacademy.eu/?lang=is 

Empower verkefnið snýst um að þróa þjálfunarefni fyrir ráðgjafa og sjálfboðaliða sem vinna með  konum sem hafa verið fórnarlömb heimilisofbeldis, eiturlyfjanotkunar, mansals eða eruheimilislausar til að þær geti tekið virkari þátt í samfélaginu og aukið við hæfni sína á starfsvettvangi. Á Íslandi verður einblínt á konur af erlendum uppruna sem oft á tíðum eiga erfitt með að aðlagast íslensku samfélagi og að nýta sína menntun og þekkingu. Þannig er hætta á félagslegri og mennntunarlegri útilokun (social and educational exclusion) en þessar konur hafa jafnvel fá námstækifæri.  

EMPOWER mun einnig þróa þjálfunarefni fyrir konurnar sjálfar með það að markmiði að auka starfshæfni þeirra, frumkvöðlahæfni og seiglu. Snýst verkefnið um að aðstoða þær við að komast aftur á vinnumarkað eða fá þjálfun til að stofna sín eigin fyrirtæki. Þannig verður til sérhæfð þjálfun sem er kannski ekki til staðar í hefðbundnu námi ráðgjafa.

EMPOWER verkefnið mun byggja upp þeirra hæfni og færni, styrkleika og seiglu til að takast á við nýjar áskoranir og leggja áherslu á persónulega hæfni svo sem sjálfsstyrkingu.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins www.empowerwomen.eu

Markmið FEMALE verkefnisins er að styðja við frumkvöðlakonur í Evrópu sem hafa nýlega stofnað sitt eigið fyrirtæki, með því að styrkja færni þeirra og getu.  Ennfremur er markmið að hvetja frumkvöðlakonur til dáða með því að bjóða þeim aðgang að hagnýtum upplýsingum og styrkja tengslanetið með því að taka þátt í samfélagsmiðli frumkvöðlakvenna í Evrópu.  

 FEMALE er samstarfsverkefni fimm Evrópulanda sem vinna að því að styðja við og styrkja frumkvöðlakonur. Samstarfsaðilar  eru Vinnumálastofnun og Háskólinn á Bifröst á Íslandi, Inova í Bretlandi, KRIC í Litháen, ATAEM á Spáni og Viteco á Ítalíu.

 Hlutfall fyrirtækja í eigu kvenna í Evrópu er aðeins 30% að meðaltali sem þýðir að hæfileikar og færni kvenna er ekki nýtt til fullnustu á vinnumarkaðinum. Afleiðingin er sú að færri störf verða til og tíðni atvinnuleysis helst há meðal kvenna. Efnahagskreppan hefur varpað ljósi á þessar staðreyndir og ljóst er að þörf er á fleiri fyrirtækjum í eigu kvenna til að auka verðmætasköpun og fjölga störfum. 

 FEMALE er verkefni sem hefur það markmið að brúa það færnibil sem frumkvöðlakonur á Íslandi, Spáni,  Litháen, og Bretlandi standa frammi fyrir. Markmið okkar er að auka kunnáttu hlutlægrar hæfni (markaðsetningu, vöruþróun, fjármögnun,  bókhald, útflutning, netið 2.0 og samfélagsmiðlar), og huglægrar hæfni með því að nota aðferðarfræði þátttökunáms (action learning).  Ennfremur taka þáttakendur þátt í svokölluðum fræðslu og þjálfunarhringjum (mentoring circles) 

Verkefninu er formlega lokið en enn er hægt að nálgast hagnýtar upplýsingar á heimasíðu verkefnisins www.femaleproject.eu

Vinnumálastofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands standa fyrir námskeiði fyrir frumkvöðlakonur af erlendum uppruna haustið 2017, en verkefnið hlaut styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála í vor. Félag kvenna af erlendum uppruna er einnig samstarfsaðili í verkefninu.

Námskeiðið er fyrir konur af erlendum uppruna sem vilja fullvinna viðskiptaáætlun sína. Ekki er skilyrði að búið sé að stofna fyrirtæki um verkefnið en að hugmynd sé nokkuð mótuð og að stofnað verði fyrirtæki.  Efnið á námskeiðinu mun samanstanda af fræðslu um frumkvöðlafræði, stefnumótun, markaðs- og samkeppnisgreiningu, markaðsáætlanagerð, markaðssetningu á netinu, fjárhagsáætlanagerð og fjármögnun, skatta og launamál.

Einnig verður farið í persónulega hæfniþætti eins og markmiðasetningu, tímastjórnun, kortlagningu tengslanets,  samskipti, eflingu sjálfstraust, styrkleikagreiningu, mannauðsstjórnun og samningatækni.

Að loknu námskeiðinu munu þátttakendur kynna sínar viðskiptaáætlanir og fá viðurkenningar fyrir þátttökuna.

Námskeiðið hefst þann 4.september næstkomandi og stendur í 14 vikur og verður kennt í húsnæði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Keldnaholti.  Kennt verður á mánudögum frá kl. 13.00-16.00

Þátttakendur verða að hafa gott vald á íslensku og ensku, þar sem námsefnið verður á íslensku en kennt á ensku.

Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu en krafist er 80% mætingar.