Frumkvöðlar mánaðarins að þessu sinni eru tvær kjarnakonur, þær Guðný og Katrín sem saman stofnuðu nýlega fyrirtækið PROJECTS sem veitir ýmiskonar ráðgjöf og þjálfun til fyrirtækja.  Okkur lék forvitni á að vita meira um þeirra verkefni.

Hverjar eru konurnar á bak við PROJECTS?

Við erum tveir reynsluboltar sem stofnuðum PROJECTS nú á haustdögum 2017.

Guðný Guðjónsdóttir var forstjóri Sagafilm frá 2015-2017, fjármálastjóri Sagafilm frá 2007-2015 og forstöðumaður á fjármálasviði Vodafone frá 2001 til 2007.  Hún er með MBA gráðu í alþjóðlegum viðskiptum frá San Diego State University og BS gráðu frá University of Nevada í Las Vegas í hótelstjórnun. Guðný er gift Baldri Sigurvinssyni og á eina uppkomna dóttur, Söru D. Baldursdóttur og son á unglingsaldri, Óðinn Freyr Baldursson.
Katrín Dóra Þorsteinsdóttir ber titilinn vörustjóri. Hún er rekstrar- og viðskiptafræðingur með MBA og hefur starfað sem framkvæmda-, fjármála-, mannauðs, og verkefnastjóri, bæði í einkafyrirtækjum, opinberum stofnunum og félagasamtökum. Áður var hún forstöðumaður hugverkaiðnaðar, mannauðs og menntunar hjá Samtökum iðnaðarins. Katrín á tvær fullorðnar stúlkur, Helgu Líf Káradóttur og Lydiu Ruth Þrastardóttur sem jafnframt á tvær ungar dætur.

Um hvað snýst starfsemi fyrirtækisins?

Áherslan fyrirtækisins er á að veita ráðgjöf varðandi fjármál og rekstur, mannauð, sameiningar, stefnumótun og verkefnastjórnun. Við viljum vinna með viðskiptavinum okkar að því að ná árangri með því að koma tímabundið að fyrirliggjandi verkefnum með góð ráð og þjálfun. Þannig leggjum við áherslu á að klæðskerasníða lausnir að hverjum og einum viðskiptavini eða vinnustað.

Hvernig fenguð þið hugmyndina?

Við höfum báðar gengið með það í maganum að fara út í sjálfstæðan rekstur. Leiðir okkar lágu fyrst saman í síðustu formlegu störfum okkar, Guðný var í stjórn kvikmyndaframleiðenda (SÍK, samtök innan SI) fyrir hönd Sagafilm og Katrín var þá viðskiptastjóri samtakanna. Við fórum báðar á vit nýrra ævintýra og þegar leiðir okkar lágu aftur saman síðastliðið haust vorum við báðar tilbúnar í að láta draum okkar verða að veruleika.

Hvað er mest hvetjandi ykkur í vinnu og hvað er skemmtilegast?

Það er alltaf svo gaman að hitta ný og spennandi fyrirtæki, við erum eiginlega hálfgerðir fyrirtækja ,sökkerar’ og og erum yfir okkur hrifnar af sköpunargáfu og nýsköpun. Það er því gaman að vera að skapa sitt eigið en einnig að taka þátt í því efla hugmyndir eða fyrirtæki annarra með okkar aðkomu.

Hvað er erfiðast að takast á við sem frumkvöðull?

Guðný:  Það er nauðsynlegt í þessu starfi að vera stöðugt að uppfæra sjálfa sig, læra meira, rýna inn í framtíðina og fara út fyrir þægindahringinn. Það getur hinsvegar verið krefjandi að vita nákvæmlega hvar maður vill staðsetja sig á markaði þegar áhugasviðið er vítt.

Katrín: Það er alltaf svolítið spennandi en einnig erfitt að komast að því hvort og svo hvenær hægt er að selja afurðina sem verið er að bjóða uppá. Stundum er þetta einnig spurning um hvenær hægt er að vænta tekna og getur reynt á þolrifin hjá allri fjölskyldunni.

Hvert sækið þið stuðning?

Við sækjum fyrst og fremst stuðning i tengslanet okkar, eigum báðar gott bakland af fyrrum samstarfsfólki og höfum átt samskipti við marga stjórnendur í fyrirtækjum í gegnum tíðina.

Guðný: Ég les einnig mjög mikið, að jafnaði um eina bók á viku. Á öllum krefjandi tímapunktum í mínu lífi, hef ég leitað og fundið bók, sem hefur á einhvern hátt leiðbeint mér við að leysa það verkefni eða vandamál sem ég var að kljást við á þeim tíma. Hvað varðar stuðning þá er stendur maðurinn minn og fjölskyldan ávallt þétt við bakið á mér.

Katrín: Stuðningur fjölskyldunnar skiptir mig miklu máli, foreldrar, systkini og börn hafa endalausa trú á manni.

Hverjar eru ykkar helstu fyrirmyndir?

Guðný: Ég lít upp til fólks sem þorir að vera það sjálft, viðurkennir lífið eins og það er, með öllum þeim kostum og göllum sem það hefur upp á að bjóða. Oprah Winfrey hefur haft mikil áhrif á mig, hún bauð örlögum sínum birginn og leitar stanslaust leiða til að bæta bæði sjálfa sig og heiminn. Ég mæli með að hlusta á fyrirlestrana hennar á YouTube. Ég fylgist líka vel með snillingnum Tony Robbins, ég er mjög hrifin af þeim  boðskap sem hann hefur fram að færa. Hvað varðar heilindi, hlýju og vinnusiðferði var móðir mín frábær fyrirmynd.

Katrín: Ég er hrifin af sterkum konum við stjórnvöl fyrirtækja og stofnana. Í störfum mínum hjá SI var ég svo heppinn að starfa með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir og þykir mér mikið til hennar koma sem manneskju. Ef ég horfi yfir heiminn er ég hrifin að konum eins og Michell Obama, Rosalía Mera annar stofnandi Zara verslunarkeðjunnar og íslensku dísinni Sigurlínu Ingvarsdóttir stjórnanda hjá DICE sænska leikjaframleiðendarisanum. Auðvitað erum svo margar flottar konur í mínu nærumhverfi sem mér þykir mikið til koma.

Hver eru næstu skrefin?

Nú þegar við höfum tekið fyrsta snúning er okkar næsta verkefni að vinna enn betur úr okkar sérþekkingu og hanna frekari verkfæri sem styðja við hana. Þannig getur PROJECTS skapað sér skýrari sérstöðu á ráðgjafamarkaðnum.

Getið þið gefið öðrum frumkvöðlakonum góð ráð?

Aldrei, aldrei gefast upp!  Þrautseigja og það að finna ný úrræði þegar önnur þrjóta er það sem fleytir okkur yfir hjallana í lífinu. Ennfremur er mikilvægt að hafa trú á sjálfri sér, ofhugsa ekki hlutina og láta verkin tala.

Nánari upplýsingar:

www.projects.is
https://www.facebook.com/projects.iceland/
projects@projects.is

Katrín og Guðný

Related Posts