Við tókum hús á Hjördísi Sigurðardóttur, sem er skipulagsfræðingur og framkvæmdastjóri Spors í sandinn. Hún er einnig hugmyndasmiður ALDINS bioDome verkefnisis sem nú hefur fengið samþykkta lóð í Elliðaárdal. Okkur lék forvitni á að vita meira um konuna og verkefnið.
Hver er konan?
Ég lít nú svo á að manneskjan sé samsett úr mörgum lögum sem síðan verða að einhvers konar síkvikri blöndu sem endurspeglar það sem hún leggur fyrir sig og vinnur að. Ég er alin upp í sunnlenskri sveit, að Kastalabrekku í Ásahreppi. Ég er rík, eignaðist fjögur börn Sóleyju Birnu sem er langt komin með umhverfis og byggingaverkfræði við HÍ, Sigurð Nökkva sem er langt kominn með húsasmíði við Tækniskólann og svo Svanhildi Guðnýju og Arnbjörn Óskar sem bæði eru í grunnskóla. Ég hef fremur breiða menntun en ég er með BSc gráðu í matvælafræði frá HÍ og umhverfisskipulagi frá LbhÍ og vann um árabil innan þess geira og síðan er ég með MSc gráðu í landslagsarkitektúr og skipulagi með áherslu á skipulag frá Wageningen University í Hollandi. Ég vann í stuttan tíma á teiknistofu eftir námið en síðan leiddi eitt af öðru og nú ég er framkvæmdastjóri Spor í sandinn en fyrirtækið vinnur að þróun ALDIN BioDome verkefninu sem hefur átt hug minn í næstum þrjú ár. Með þeirri þróunarvinnu hef ég unnið sem stundakennari í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Segðu okkur frá fyrirtækinu þínu
Við höfum fengið lóðarvilyrði í jaðri Elliðaárdals til reisa eins konar lífhvolf eða ‘BioDomes’ – verkefnið hefur fengið heitið ALDIN BioDome Reykavík. Með jarðvarmanum og gróðurlýsingu sköpum við aðgang að gróðursælu umhverfi allt árið í hjarta borgarinnar. Markmiðið er að skapa umhverfi sem tengir okkur við náttúruna í gegnum daglegar athafnir, veitir vellíðan, hjálpar okkur að tengjast innra sjálfi og verða meðvitaðri sem neytendur. Við viljum snerta fólk, hreyfa við fólki!
Þetta verða þrjár mis stórar glerhvelfingar sem hýsa margháttaða starfsemi. Á opnu torgi í aðalhvelfingunni munum við veita fólki aðgang að vörum beint frá býli með upplýsingum og fræðslu sem og úrvals veitingastöðum og verslun. Til hliðar við trjákórónur gefst tækifæri til að vinna eða funda í umhverfi sem eykur sköpunargáfu og afköst. Í trópískri hvelfingu er boðið upp á fræðslu og hvíldarsvæði og í ræktunarhvelfingu getur fólk tekið þátt í ræktun og tilraunum í matjurtarækt. Inn í starfsemina verður fléttað aðstöðu fyrir heilsurækt s.s. jóga og hugleiðslu. Við munum einnig sérhæfa okkur í að halda viðburði hverskonar, fræðslufundi, veislur og móttökur. Staðsetningin er miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og er vel tengd inn í græna netið sem gerir fólki auðvelt að koma til okkar hjólandi eða gangandi. Með þjónustu okkar ætlum að þjónusta bæði nærumhverfi og ferðamenn og skapa einstakan vettvang til innblásturs og skoðanaskipta.
Hvernig fékkstu hugmyndina?
Í náminu í Hollandi gerði ég mér betur og betur grein fyrir hve mikið við getum lært af náttúrulegum ferlum. En um leið blasir við að nútímamaðurinn hefur svolítið verið að missa tengsl sín við náttúruna. Áherslurnar í náminu úti voru m.a. að skipuleggja umhverfi okkar út frá því hve mikið við gætum sparað í orku og efni, með vistkerfin sem fyrirmynd; hvernig staðsetja mætti ólíka starfsemi og innviði til að ná fram meiri hagræðingu, minnka vistspor og skapa fjölbreyttara og meira spennandi umhverfi. Ég reyndi síðan að tengja mín ólíku fagsvið gegnum lokaverkefnið mitt með því að skoða svokallaðan borgarbúskap (urban farming) í tveimur alþjóðlegum borgum og sjá hvaða lærdóm mætti draga af þeim dæmum. Þó dæmin hafi verið ólík og sprottin af ólíkum meiði þá áttu þau það sameiginlegt að hafa mjög jákvæð áhrif á borgarumhverfið og samfélagið. Eftir að ég kom að utan, blundaði í mér að svara því af hverju og hvernig við hér á landi myndum þróa eitthvað í þessa átt og félli um leið að alþjóðlegri þróun í dag. Svarið kom smám saman og hafði þá að gera með framúrskarandi tækifæri okkar að vinna meira með jarðvarmann og alla okkar grænu orku, að virkja tekjustrauma ferðamanna til að byggja upp okkar innviði og um leið að svara áskorunum sem hafa að gera með að búa hér á norðurslóðum, kröfu um aukna sjálfbærni, bætta lýðheilsu og vellíðan. Upphafleg hugmynd var valin inn í viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík sumarið 2015, en það reyndist gríðar góður skóli fyrir mig sem og frábær vettvangur þar ég kynntist lykilfólki verkefnisins í dag.
Hvað er mest hvetjandi fyrir þig í þinni vinnu? Hvað er skemmtilegast?
Það er margt sem spilar saman. Í fyrsta lagi er það ákveðin eldur sem brennur innra með manni og maður er drifinn áfram af sýn sem maður er svo sannfærður um að sé það sem koma skal fyrir framtíðar borgina og samfélög almennt. Svo er það þetta sköpunarferli sem er bæði fjölbreytt, krefjandi og dýnamískt og felur í sér ótal samtöl við allskonar fólk, fyrirtæki og stofnanir. Það er ævintýri að snerta á öllum þeim flötum sem svona verkefni krefst.
Hvað er erfiðast að takast á við sem frumkvöðull?
Sem frumkvöðull býr maður við töluverða óvissu. Ætli það sé ekki erfiðasti vinkillinn á þessu öllu saman, sérstaklega þegar maður hefur fyrir fleirum að sjá en manni sjálfum. Óvissan um hvenær ákveðnum vörðum sé náð sem hefur með ýmsa ferla að gera og spilar síðan saman með fjármögnun og þess háttar. Það er verulega mikið lagt á frumkvöðla hér á landi hvað þetta varðar. Síðan tel ég einnig að sá ‘strúktúr’ sem hefur verið sniðinn að frumkvöðlum taki að miklu leiti mið af mikilli sérhæfingu hvað varðar fagsvið og þróunarferla. Það hefur reynst erfitt að haka í fá sérhæfð box hvað varðar ALDIN BioDome verkefnið sem miðar að því að snerta marga fleti á mannlegri tilveru.
Hvert sækir þú stuðning?
Það eru forréttindi að geta unnið sjálfstætt að hugðarefnum sínum en ég hef verið heppin með gott bakland og stuðning bæði frá fjölskyldu og vinum. Án stuðnings þeirra hefði mér líklega ekki verið mögulegt að fara þessa braut. Og ekki má gleyma börnunum mínum sem hafa þolinmóð þurft að hlusta á og lifa sig inn í þetta ferli allt saman í langan tíma, alla daga og á öllum tímum sólahringsins. Í gegnum verkefnið fékk ég smá fjármagn gegnum Startup Reykjavík, NSN og Atvinnumál Kvenna. En síðan hafa fjölmargir samstarfsaðilar og bakhjarlar gert það kleift að vinna verkefnið áfram bæði íslenskir og erlendir. Einnig hafa margir einstaklingar gefið góð ráð og styrkt verkefnið.
Hver er þín helsta fyrirmynd?
Þegar ég er spurð að þessu veitist mér oft erfitt að svara. Eftir öll samtölin undanfarin ár þá er alltaf eitthvað sem hver og einn skilur eftir hjá manni. Mamma mín er einstök manneskja, duglegri kona finnst varla sem um leið er svo jákvæð og hvetjandi. Hún verður alltaf sterk fyrirmynd hjá mér. Svo ef ég mætti í dag óska mér þess að eiga spjall við fagmanneskju þá myndi ég gjarnan vilja hitta Ólaf Elíasson, hann er snillingur í að vefa saman vísindum og listum ásamt því að hugsa um félagslega þáttinn og manneskjuna út frá skynjun og skilningi hennar. Jón Kristinsson arkitekt er einnig mikill meistari, t.a.m. á sviði sjálfbærra byggingalausna.
Hver eru næstu skref hjá þér?
Unnið er að deiliskipulagi fyrir ALDIN BioDome en það er gert í samvinnu við borgina og erlenda aðila sem eru sérhæfðir í hönnun mannvirkja af þessari tegund. Um leið er unnið að því að styrkja teymið og byggja upp sterka heild sem hefur burði til að ná því markmiði að opna ALDIN BioDome fyrir íbúum og gestum innan 2-3 ára. Þetta hefur að gera með upplifunarsköpun, fjármögnun og þróun viðskiptamódels, fagþekkingu á byggingaferlum og almennu samstarfi fjölmargra aðila.
Getur þú gefið öðrum frumkvöðlakonum góð ráð?
Þetta er svolítið erfitt en mér hefur reynst það viss línudans að hafa sterka sýn og skýrt markmið en jafnframt að vera opin og hlusta á ábendingar og allskonar sjónarmið. Maður er einhvern veginn að púsla en um leið að leita að púsluspilunum, stundum geymir maður púsl sem passar inn seinna. Maður þarf að geta lifað einn dag í einu eiginlega… eins og fyrrverandi kennari minn og í dag samkennari minn Helena Guttormsdóttir, myndlistarkona, sagði eitt sinn „það getur verið gott að fresta dómnum“ ég leyfi hlutunum stundum að koma til mín í hlaupatúrnum út í náttúrunni eða á koddanum en samt að missa ekki sjónar af sýninni. Svo einnig þetta… að þegar allt virðist vera ómögulegt – það eru auðvitað öðru hvoru þannig dagar! að eins og fyrrnefnd kona sagði… „við þurfum kunna að meta óreiðuna… og ástina “ Mikilvægust lexíurnar koma nefnilega út úr mistökunum manns ef einhver mistök eru til. Eða kannski að viðurkenna ferlið sem heild er eins langt frá því að vera línuleg og hægt er að hugsa sér, og að tíminn er líka mikilvæg breyta. Eitthvað sem strúktúrinn kringum frumkvöðla þyrfti í auknum mæli að endurskoða líka. Góðir hlutir gerast hægt. Og það er stundum erfitt að láta fara saman ástríðu sem kallar á hraða en ferlarnir á tíma. Þannig að mín ráð eru kannski að vera bæði með sterka sýn en samt opin. En þá er mikilvægt að vera tengdur, andlega. Láta náttúruna hjálpa sér eða annað sem hentar hverjum og einum.