Frumkvöðlar mánaðarins eru að þessu sinni þær Hanna Kristín Skaftadóttir og Þórunn Jónsdóttir, en þær reka ráðgjafarfyrirtækið Poppins og Partners. Þær hafa getið sér gott orð við ýmiskonar ráðgjöf fyrir frumkvöðla og hafa unnið með mörgum efnilegum sprotafyrirtækjum á Íslandi. Okkur lék forvitni á að vita meira um þær og fyrirtækið.

 Hverjar eru konurnar ?

Hanna Kristín Skaftadóttir hefur víðtæka reynslu af frumkvöðlastarfsemi auk þess sem hún hefur starfað sem sérfræðingur á sviði fjármála, við kennslu og sem mentor. Hún er með MsAcc. í endurskoðun og reikningsskilum og Bsc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og nam sálfræði við Stanford háskóla. Hún var áður fjármálastjóri Skema, sérfræðingur hjá KPMG, Deloitte og Íslandsbanka og er stofnandi Mimi Creations. Hanna Kristín er gift og á tvö börn.

Þórunn Jónsdóttir er sérfræðingur í stefnumótun, styrkumsóknaskrifum og nýsköpun og hefur víðtæka reynslu á því sviði. Hún er með Bsc. í viðskiptafræði og er Alumni frá Young Transatlantic Innovative Leaders Initiative. Þórunn hefur starfað sem ráðgjafi á sviði nýsköpunar og fjármögnunar frá árinu 2014, en þar áður kom hún að nokkrum nýsköpunarverkefnum, t.d. var hún einn af stofnendum Fafu og starfaði við viðskiptaþróun og framkvæmdastjórn Skema um tíma. Hún er gift og á tvö börn.

Hvað er Poppins og Partners?

Við stofnuðum fyrirtækið formlega um mitt ár 2017 en tilgangur þess er að brúa bilið fyrir sprotafyrirtæki og frumkvöðla á fyrstu stigum rekstrar og yfir á vaxtarstig með áherslu á stefnumótun, áætlanagerð og fjármögnun. Við höfum unnið með nokkrum af efnilegustu sprotum landsins, t.d. Sling, Gagarín, Authenteq, Calmus, TeqHire, FitSuccess og Ghostlamp og tryggt viðskiptavinum okkur rúmlega 360 milljónir króna í styrki.

Hvernig fenguð þið hugmyndina?

Báðar höfðum við starfað sem frumkvöðlar að eigin hugmyndum auk þess að koma að vaxandi nýsköpunarfyrirtækjum sem ráðgjafar og starfsfólk. Þórunn hafði starfað við ráðgjöf til sprotafyrirtækja með áherslu á skrif á styrkumsóknum um nokkurt skeið og leiðir hennar og Hönnu Kristínar höfðu oft legið saman sem varð til þess að þær unnu saman að nokkrum verkefnum frá árinu 2016, meðal annars við nýsköpunarkennslu við Tækniskólann, styrkumsóknaskrif og aðstoð við skipulagningu Startup Iceland. Við tókum eftir mikilli eftirspurn eftir þjónustu í frumkvöðlaumhverfinu, til dæmis við áætlanagerð, uppsetningu á kynningarefni fyrir fjárfesta og aðstoð við styrkumsóknaskrif. Hanna Kristín kom inn með bakgrunn í fjármálum og Þórunn hafði verið í nýsköpunarráðgjöf frá 2014 svo við sáum þarna tækifæri til að nýta styrkleika og færni okkar beggja til að svara þessari þörf með stofnun ráðgjafarfyrirtækis. Við höfum, frá stofnun félagsins, tekið eftir aukinni þörf hjá starfandi þjónustu- og framleiðslufyrirtækjum eftir þjónustu okkar þar sem þau eru mörg hver að horfa til nýsköpunar til að auka samkeppnisforskot sitt. Við sjáum mikil tækifæri fyrir þau í því umhverfi sem við störfum og eigum von á að nýsköpunarverkefni innan starfandi fyrirtækja muni aukast á komandi mánuðum.

Hvað er mest hvetjandi í ykkar vinnu og hvað er skemmtilegast?

Það sem er hvað mest hvetjandi í okkar starfi er þegar við náum settum markmiðum.
Við erum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í mjög ólíkum verkefnum af ýmsum stærðargráðum og fjölbreytnin spilar stóran þátt í að gera starfið okkar skemmtilegt.
Markmið okkar eru að miklu leiti tengd árangri okkar viðskiptavina, svo þegar þeir blómstra þá blómstrum við með þeim.

Hvað er erfiðast að takast á við sem frumkvöðull?

Sem frumkvöðlar höfum við báðar staðið frammi fyrir því oftar en einu sinni að þurfa að taka ákvörðun um hvort eigi að þrauka og halda áfram eða að hætta. Það getur verið mjög erfitt að átta sig á því hvert er rökrétt næsta skref í slíkum aðstæðum því frumkvöðlar standa svo nærri verkefnum sínum að tilfinningar og stolt verða oft stór þáttur í ákvarðanatöku. Orkustjórnun getur líka verið erfið í starfi frumkvöðuls – hvenær á að taka frí og hvenær á að keyra áfram? Hvernig á að stýra utanaðkomandi áreiti, t.d. símtölum frá fjölskyldumeðlimum sem halda að þegar fólk vinnur í sínu eigin fyrirtæki, hvað þá á heimaskrifstofu, þá hafi viðkomandi tíma hvenær sem er dagsins fyrir alls kyns viðvik. Að lokum má nefna að fyrir frumkvöðla sem eru tveir eða fleiri að vinna saman að viðskiptahugmynd getur verið erfitt að brúa væntingabil og byggja upp samskiptavenjur sem skila árangri. Þetta eru þó allt hindranir sem má yfirstíga og breyta í vaxtartækifæri.

Hvert sækið þið stuðning?

Við sækjum stuðning til hvor annarrar, en við höfum ólíka styrkleika og nálganir sem hefur reynst vel við úrlausn hinna ýmsu mála. Við erum báðar vel giftar og makar okkar hafa báðir sýnt okkur ómetanlegan stuðning í uppbyggingu Poppins & Partners. Þegar álagið er mikið er líklega hvað mikilvægast að ástvinir sýni ástandinu þolinmæði og skilning og þar höfum við verið afar lánsamar. Á þeim rúmlega 10 árum sem við höfum verið í sprotaheiminum höfum við kynnst öðrum frumkvöðlum sem við sækjum ráð og stuðning til með hin ýmsu mál.

Eigið þið ykkur fyrirmyndir?

Hanna Kristín: Oliver Sacks, Sophia Amoruso og Robert M. Sapolsky

Þórunn: Sophia Amoruso, stofnandi Girlboss.

Hvað er framundan hjá Poppins og Partners?

Það er margt framundan hjá okkur. Við erum í stöðugum um bótum á innri ferlum fyrirtækisins og þjónustu og munum á næstu vikum breikka þjónustuframboð okkar í takt við eftirspurn og tækifæri á markaði. Við erum auk þess að vinna að þróun á stafrænum vörum sem eru sérstaklega hannaðar fyrir konur í frumkvöðlastarfi, þó að þær muni nýtast frumkvöðlum óháð kyni.

Þá erum við að fara að halda ráðstefnu um fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja á Íslandi þann 4. október n.k. með stuðningi Atvinnumála kvenna, Frumtaks, NSA og Svanna lánatryggingasjóðs. Þátttakendur á ráðstefnunni geta svo skráð sig á fríar vinnustofur í gerð fjárfestakynninga, undirbúningi hópfjármögnunarherferða (í samstarfi við Karolina Fund) og styrkumsóknaskrifum sem haldnar verða seinni hluta ráðstefnudagsins.  Nálgast má nánari upplýsingar um ráðstefnuna og skráningu á hana með því að smella hér https://www.poppinsandpartners.com/fadu-fjarmagn-2018

Eigið þið góð ráð fyrir frumkvöðlakonur sem eru að stíga sín fyrstu skref?

Ekki gefast upp, ekki taka neinu persónulega og ekki leyfa þér að efast um getu þína í verkefnum þínum eða það sem kallað er  “imposter syndrome”.

Related Posts